Krækjur í fyrstu deild

Þessar tryggðu Krækjum deildarmeistaratitilinn í lokaumferð blakliða neðri deilda í Kórnum Kópavogi um helgina. Mynd: FB Krækjur.
Þessar tryggðu Krækjum deildarmeistaratitilinn í lokaumferð blakliða neðri deilda í Kórnum Kópavogi um helgina. Mynd: FB Krækjur.

Deildarkeppni neðri deilda í blaki lauk sl. sunnudag en leikið var á Flúðum, á Álftanesi og í Kórnum í Kópavogi. Krækjurnar, sem keppa undir merkjum Umf. Hjalta, gerðu sér lítið fyrir og urðu deildarmeistarar í 2. deild eftir sigur í öllum leikjum vetrarins. 

Þessi árangur færði Krækjum keppnisrétt í 1. deild á komandi leiktímabili og fylgja stelpurnar í Grundarfirði þeim í Benctadeildina, eins og hún kallast í dag. „Spiluð var ein umferð á milli efstu sex liðanna eftir heila umferð í deildinni fyrr í vetur. Við unnum alla fimm leikina 2-0 og enduðum því í 1. sæti,“ segir Vala Hrönn Margeirsdóttir, leikmaður Kjækjanna.

Sigur í öllum leikjum vetrarins, hver er galdurinn á bak við þá velgengni?
„Breiddin í liðinu klárlega og hvað við æfum lítið – komum alltaf ferskar í mót. Að öllu gríni slepptu þá tel ég að mórallinn skili miklu en við reynum að vera hressastar í húsinu hvar sem við komum og höfum gaman af því að spila blak saman. Þó að við dettum niður þá höfum við náð að rífa okkur upp og spila okkar leik. Við erum níu sem höfum verið að spila í deildinni í  vetur en það eru alltaf einhverjar sem komast ekki og því þurfum við allar að vera klárar í hvaða stöðu sem er inni á vellinum. Í liðinu eru hörku blakarar með mismikla reynslu en við vegum hverja aðra upp og njótum þess að spila saman,“ segir Vala sem á von á spennandi tímabili næsta vetur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir