Lið KF fór með sigur í fjörugum nágrannaslag

Addi með boltann en hann skoraði tvívegis í dag og var hættulegur. MYND: ÓAB
Addi með boltann en hann skoraði tvívegis í dag og var hættulegur. MYND: ÓAB

Tindastóll og Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mættust í B-deild Lengjubikarsins á KS-vellinum í dag. Leikið var við skínandi fínar aðstæður en það voru gestirnir sem voru heldur sterkari aðilinn í leiknum en lið KF spilar í 2. deild en Stólarnir í þeirri þriðju. Jafnt var í hálfleik en eftir æsilegan kafla um miðjan síðari hálfleik fækkaði í liði Tindastóls og gestirnir náðu að landa sigri, 2-3.

Lið KF var heldur öflugra framan af leik en það var þó ekki fyrr en 36. mínútu sem markahrókurinn Oumar Diouck náði að skora laglegt mark eftir að Stólunum mistókst að koma boltanum af hættusvæðinu. Tindastólsmenn voru hins vegar snöggir að kvitta fyrir sig, komust upp hægri kantinn og sendu fyrir markið og boltinn barst til Adda Ólafs sem afgreiddi snyrtilega.

Fátt markvert gerðist framan af síðari hálfleik en augljóst var að bæði lið vildu sækja sigurmarkið og var lítið gefið eftir eins og vænta má í grannaslag. Upp úr sauð um miðjan seinni hálfleik þegar gestirnir skoruðu laglegt mark. Skömmu áður hafði Addi orðið fyrir hnjaski og lá eftir á vellinum þegar gestirnir hófu sókn. Stólarnir töldu að dómarinn hefði átt að stöðva leikinn þar sem um höfuðmeiðsli hefði verið að ræða en gestirnir töldu þetta uppgerð. Eftir nokkra reikistefnu ákvað dómarinn að dæma bara rangstæðu.

Stólarnir voru enn nokkuð æstir þegar leikur hófst á ný og þrátt fyrir köll af bekknum um að róa sig þá misstu heimamenn strax boltann og fengu mark á sig. Aftur var Oumar á ferðinni. Mínútu síðar fékk Juan Carlos í liði Stólanna að líta rauða spjaldið fyrir hættulega tæklingu. Þrátt fyrir þetta áfall jafnaði Addi leikinn öðru sinni, slapp laglega í gegnum vörn gestanna og skoraði af öryggi. Þrátt fyrir að vera einum færri voru heimamenn viljugir að láta reyna á vörn KF en það voru eðlilega gestirnir sem voru hættulegri og þeir uppskáru sigurmark þegar Atli Snær átti gott skot utan teigs sem Atli Dagur náði ekki að stöðva. Stólarnir fengu færi til að jafna eftir þetta en allt kom fyrir ekki.

Leikurinn var ágæt skemmtun og leikmenn sýndu ágæta spretti. Atli varði oft vel í markinu en inni á miðjunni togaði Konni í strengina að venju. Eðlilega er enn talsverður vorbragur á leik Tindastóls en augljóslega er gervigrasvöllurinn að gera gott mót varðandi framfarir leikmanna. Næsti leikur Tindastóls í Lengjubikarnum er 20. mars en þá kemur lið Kára frá Akranesi í heimsókn á KS-völlinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir