Lið Kormáks/Hvatar gefur hvergi eftir í toppbaráttunni

Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS
Lið Kormáks/Hvatar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐU KORMÁKS

Hún var mögnuð knattspyrnuhelgin á Norðurlandi vestra. Bæði meistaraflokkslið Tindastóls unnu mikilvæga leiki og á Blönduósi bætti stolt Húnvetninga, lið Kormáks/Hvatar, enn stöðu sína í toppbaráttu 3. deildar. Í dag mættu þeir liði ÍH úr Hafnarfirði og þó einhverjir gætu sagt að þetta hafi verið skildusigur þá geta slíkir leikir reynst bananahýði. Húnvetningum skrikaði þó ekki fótur í leiknum og fóru létt með ÍH-inga og unnu 5-0 sigur.

Ismael Moussa opnaði markareikninginn eftir aðeins fjórar mínútur og hann bætti um betur á 28. mínútu. Kristinn Bjarni Andrason gerði þriðja mark heimamanna á 39. mínútu og Jose Moreno bætti fjórða markinu við rétt fyrir hálfleik. Eina mark síðari hálfleiks gerði síðan Orri Arason á 76. mínútu og góður sigur því staðreynd og talsverð bæting á markatölu.

Á sama tíma unnu Reynir Sandgerði og Víðir Garði sína leiki en vinir Húnvetninga í Kára frá Akranesi gerðu liði Kormáks/Hvatar smá greiða með því að leggja lið Augnabliks í gras. Þetta allt saman þýðir að Reynir Sandgerði er í sterkri stöðu á toppi deildarinnar með 31 stig. Lið Kormáks/Hvatar er í öðru sæti með 26 stig og Víðir stigi minna í þriðja sæti. Augnablik og Árbær eru síðan í fjórða og fimmta sæti með 21 stig. Það stefnir því allt í háspennu í 3. deildinni en það væri hreint magnaður árangur hjá Húnvetningum næðu þeir að tryggja sér sæti í 2. deild að ári. Koma svo!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir