Lið KR fór illa með Stólastúlkur í þriðja leikhluta

Eva Rún á fullri ferð í leik gegn ÍR á dögunum. MYND: DAVÍÐ MÁR
Eva Rún á fullri ferð í leik gegn ÍR á dögunum. MYND: DAVÍÐ MÁR

Kvennalið Tindastóls í körfunni heimsótti lið KR á Meistaravelli í gærkvöldi í 1. deildinni. Leikurinn fór ágætlega af stað og lið Tindastóls tveimur stigum yfir að loknum fyrri hálfleik. Heimastúlkur bitu hinsvegar duglega frá sér í þriðja leikhluta og náðu góðri forystu fyrir lokafjórðunginn. Stólastúlkur sýndu karakter og náðu að klóra í bakkann en lokatölur voru 80-71 fyrir KR.

Maddie Sutton var atkvæðamest Stólastúlkna með 24 stig og 17 fráköst en í liði KR stóð Hulda Ósk Bergsteinsdóttir upp úr með 27 stig og fimm fráköst.

Feykir hafði samband við Jan Bezica, þjálfara Tindastóls, og spurði hvað hvað honum hefði fundist um leikinn. „Mér fannst við byrja leikinn vel og spila vel í fyrri hálfleik. Í þriðja leikhluta byrjuðum við ágætlega, gerðum sjö stig á þremur mínútum en lentum svo í vandræðum með varnarleik KR – ekkert dæmt.

Hvað varstu helst ánægður með í leiknum? „Þegar ég lít til baka þá fannst mér við spila vel í fyrri hálfleik og í lokafjórðungnum, við gáfumst ekki upp, jafnvel ekki eftir að Ksenju var vísað úr húsi. Ég var mjög ánægður með að við skildum vinna frákastabaráttuna og að við sýndum karakter og spiluðum allt til enda – við gáfumst ekki upp. Ég er mjög ánægður með að yngri stelpurnar; Anna Karen, Rebekka Hólm og Klara Sólveig eru að nota sínar mínútur á vellinum vel, rétt eins og allar hinar stelpurnar. En við höldum áfram að bæta okkur og leggja mikla vinnu á okkur sem mun skila sér í því að við mætum með meira sjálfstraust til leiks.

Aftur var þriðji leikhluti slakur; er það bara tilvijun eða er þetta eitthvað sem hægt er að laga? „Byrjun síðari hálfleiks, eða eigum við að segja þriðji leikhluti, var ekki góður hvað varðar að skora en við fengum opin skot sem við eigum að setja niður. Við munum verða betri og við munum vinna í að laga þetta,“ segir Jan Bezica.

Enga tölfræði frá leiknum var að finna á vef KKÍ sem er miður þegar spilað er á Meistaravöllum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir