Lið Tindastóls náði í sætan sigur í Síkinu í gær

Eva Rún fyrirliði átti flottan leik í gær. MYND: DAVÍÐ MÁR
Eva Rún fyrirliði átti flottan leik í gær. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það voru ekki bara Stólastúlkur í fótboltanum sem gerðu vel í gær því Stólastúlkur í körfunni hristu af sér vonbrigðin úr Hveragerði á dögunum með því að leggja sameinað lið Aþenu/Leiknis/UMFK í parket í Síkinu. Lið Tindastóls átti fínan leik og vann alla leikhlutana og því sanngjarnan sigur þegar upp var staðið. Lokatölur 75-62.

Lið Aþenu komst yfir eftir tvær og hálfa mínútu, 2-3, en það reyndist eina skiptið sem þær leiddu í leiknum. Stólastúlkur tóku yfir og leiddu með átta stiga mun að fyrsta leikhluta loknum, 19-11. Heimaliðið hélt þetta sex til átta stiga forystu framan af öðrum leikhluta en körfur frá Evu Rún, Jaylu og Emese breyttu stöðunni úr 31-23 í 37-23 þegar rúm mínúta var til hálfleiks og það var sterkt. Gestirnir náðu þó að minnka muninn í níu stig fyrir hlé en þá var staðan 37-28.

Stólastúlkur byrjuðu síðari hálfleik ágætlega og náði 13 stiga forystu en gestirnir svöruðu með áhlaupi en þau stóðu stutt yfir og alltaf áttu heimastúlkur svör. Um miðjan leikhlutann munaði tíu stigum, 47-37, heimaliðið jók muninn og gestirnir svöruðu að bragði en staðan var 55-44 þegar fjórði leikhluti hófst. Lið Aþenu gekk illa að brúa bilið og það var frekar að Stólastúlkur bættu í en mestur varð munurinn 16 stig, 67-51, þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Það reyndist ekki stór vandi að klára leikinn og Stólastúlkur drógu því tvö stig til viðbótar í stigabúrið sitt og eru nú komnar með tíu stig í deildinni.

Eftir frekar dapurt framlög heimastúlkna í Þorlákshöfn í leiknum á undan þá reif fyrirliðinn sig upp og endaði framlagshæst í gær; gerði 18 stig, tók fimm fráköst og átti sex stoðsendingar. Jayla spilaði minna en oft áður en hún gerði 25 stig og var stigahæst en Emese gerði 23 stig og tók 17 fráköst. Í liði gestanna var Ása Lind Wolfram atkvæðamest með 15 stig og átta fráköst og Nerea Brajac gerði 12 stig. Líkt og í Þorlákshöfn gerði lið Tindastóls eina 3ja stiga körfu í leiknum í gær, sem Rebekka gerði, en nú virðast Stólastúlkur vera búnar að gefa þessi skot upp á bátinn því allt í allt tók liðið aðeins sjö 3ja stiga skot í leiknum! Ágætlega gekk að skora innan teigs og það kom því ekki að sök.

Liðið virðist því heldur vera að rétta úr kútnum eftir erfiðan vetur í 1. deildinni. Nú eru þrjár umferðir eftir og spila Stólastúlkur alla leikina á viku. Tveir þeir fyrstu verða hér heima en þann 12. mars kemur lið Ármanns í heimsókn en eftir frábæran vetur í fyrra hefur það lið dalað og því góður séns á að ná í tvö stig gegn því fína liði til tilbreytingar. Þann 15. mars kemur topplið Stjörnunnar í heimsókn en 18. mars heimsækja stelpurnar Vesturbæinn þar sem lið KR bíður. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir