Meistarar Tindastóls spólandi á öllum

Callum Lawson var stigahæstur Stólanna á Hlíðarenda. MYND: DAVÍÐ MÁR
Callum Lawson var stigahæstur Stólanna á Hlíðarenda. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það er ekki mikill meistarabragur á meisturum Tindastóls nú í upphafi árs. Síðastliðinn fimmtudag fóru strákarnir á Hlíðarenda Valsmanna í kjölfarið á þremur tapleikjum í deildinni. Það var því alveg tilefni til að snúa gömlu díselvélina í gang gegn toppliði Vals en þrátt fyrir góða byrjun í leiknum þá entist sá ágæti byr skammt og heimamenn fögnuðu sigri þrátt fyrir nokkur ágæt áhlaup Stolanna. Lokatölur 90-79.

Úrslitin þýða að lið Tindastóls er nú aleitt í níunda sæti Subway-deildarinnar með 14 stig og er því ekki í úrslitakepnnissæti sem stendur. Það er næsta víst að eitthvað þarf Eyjólfur að hressast ef ekki á illa að fara.

Stólarnir byrjuðu leikinn vel á Hlíðarenda, komust í 9-15 en Valsmenn svöruðu með 13-0 kafla, leiddu þá 22-15 og létu forystuna aldrei af hendi eftir það. Staðan var 22-15 að loknum fyrsta leikhluta og gestirnir minnkuðu muninn í 30-26 en þá bættu Valsmenn við einum gír og leiddu með tólf stigum í hálfleik, 50-38.

Fjórir þristar í upphafi þriðja leikhluta glæddu vonir stuðningsmanna Tindastóls og þristur Þóris minnkaði muninn í þrjú stig, 55-52. En Valsmenn áttu alltaf svör við áhlaupum Tindastóls og tvívegis minnkuðu Stólarnir muninn í fimm stig í fjórða leikhluta en allt kom fyrir ekki.

Þriggja stiga nýting beggja liða var til fyrirmyndar en Valsmenn engu að síður Stólunum fremri á því sviði, voru með 44% nýtingu gegn 39% nýtingu Stólanna. Stigahæstur í liði Tindastóls var Callum Lawson með 21 stig, Drungilas skilað 15 stigum, Geks 14 og Calloway 13. Næsti leikur Tindastóls er hér heima 2. febrúar en þá kemur lið Breiðabliks í heimsókn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir