Pavel segir einvígið við Keflavík kalla á sterka liðsheild

Pavel fer með sakramentið í leikhléi fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pavel fer með sakramentið í leikhléi fyrr í vetur. MYND: DAVÍÐ MÁR

Úrslitakeppnin í körfunni hófst í gærkvöldi með tveimur leikjum. Njarðvíkingar unnu nauman sigur á ólíkindatólum Grindvíkinga og Stjörnumenn komu á óvart og lögðu Valsmenn að Hlíðarenda. Í kvöld mætast síðan Haukar og Þór Þorlákshöfn og það sem mestu skiptir; Keflavík og Tindastóll. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Pavel Ermolinski, þjálfara Tindastóls.

Hvernig leggjast leikir gegn liði Keflavíkur í þig, hvers megum við vænta? „Þetta verða hörkuleikir. Keflavík hefur verið eitt besta lið deildarinnar í mörg ár núna. Það er mikil hefð þarna og alltaf gaman að mæta þeim.“

Ertu ánægður með lið Tindastóls eftir síðustu leiki? „Liðið okkar er á góðum stað. Ég finn fyrir sjálfstrausti hjá strákunum með bæði sjálfa sig og það sem við erum að gera. Það er fyrir öllu. Það mega ekki vera neinar efasemdir á þessum tímapunkti. Svo mætum við bara með það okkar og berum það á borð.“

Hverjir eru styrkleikar Keflavíkur og hvað þurfa Stólarnir að varast? „Keflavík er með stóran hóp af góðum leikmönnum. Þessi sería kallar á að liðsheildin sé sterk. Verðum að mæta þeim sem lið en ekki einstaklingar.“

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart frá því að þú tókst við liði Tindastóls í janúar? „Það er fátt sem hefur komið mér á óvart. Ég hafði mjög skýra sýn á hvað þetta lið væri. Það kom mér eignilega mest á óvart hvað það kom mér lítið á óvart. Ég hlakka til að upplifa úrslitakeppni Tindastólsmegin. Við lofum í það minnsta að leggja okkur alla fram og fáum vonandi það sama frá stuðningsfólkinu,“ segir Pavel að lokum.

Leikurinn í Keflavík hefst kl. 20:15 og rúta fer frá Króknum kl. 13:00 á morgun fyrir áhugasama. Það þarfekki að efast um að Grettismenn og félagar þeirra muni fjölmenna í Blue-höllina en þeir sem ekki eiga heimangegnt geta horft á leikinn á Stöð2Sport.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir