Pétur er nú alveg sæmilegur

Pétri vel fagnað eftir frábæra frammistöðu í kvöld. Urald King og Óli Gunnlaugs kampakátir. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétri vel fagnað eftir frábæra frammistöðu í kvöld. Urald King og Óli Gunnlaugs kampakátir. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var skellt í almennilega veislu í Síkinu í kvöld þegar Njarðvíkingar komu í heimsókn. Fyrstu tvær mínútur leiksins litu gestirnir nokkuð vel út en næstu 25 mínúturnar þar á eftir léku Stólarnir líkt og töframenn og þar fór Pétur Birgis fremstur í sprækum flokki listamanna. Fjórði leikhlutinn var formsatriði og lið Tindastóls fagnaði frábærum sigri í þessum leik toppliða Dominos-deildarinnar. Lokatölur 95-73 og Stólarnir eru nú einir og enn taplausir á toppi deildarinnar.

Flestir áttu von á hörkuleik í kvöld enda höfðu Njarðvíkingar, líkt og Tindastóll, unnið þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu. Reyndar voru þetta allt jafnir leikir sem unnust með mikilli baráttu í fjórða leikhluta. Eftir að Urald King hóf leik kvöldsins á risatroðslu gerðu gestirnir næstu sjö stigin og virtust heldur betur klárir í slaginn. Það var þó eiginlega öðru nær því Stólarnir tóku öll völd á vellinum í kjölfarið og skelltu í 17-2 kafla sem innihélt meðal annars tvo silkiþrista frá Viðari. Hannes setti líka þrist niður úr sínu fyrsta skoti, staðan 22-11, og þá má eiginlega segja að Pétur hafi tekið yfir – hann bæði leikstýrði og lék aðalhlutverkið. Reyndar má segja að um stórmynd hafi verið að ræða því það voru stórleikarar í öllum aukahlutverkum. Vörn Tindastóls var osom, svo slett sé í form, og Njarðvíkingar voru nánast brjóstumkennanlegir á löngum köflum. Vörn Stólanna var svo áköf að það virtist sem gestirnir væru komnir með svima þegar þeir stóðu undir körfu heimamanna og reyndist ógjörningur að koma boltanum niður um hringinn hvað eftir annað. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 27-15 og um miðjan annan leikhluta höfðu Stólarnir bætt við 16 stigum en gestirnir tveimur. Pétur sem hafði leikið sér að því að skora eftir gegnumbrot setti nú niður tvo þrista og Danero og Hannes bættu um betur. Staðan 55-31 í hálfleik.

Tindastólsmenn hófu leik í síðari hálfleik af sama ákafanum og hafði einkennt leik liðsins í fyrri hálfleik. Það eina sem klikkaði voru 3ja stiga skot Brynjars Þórs sem klúðraði nokkrum galopnum þristafærum, en það kom þó ekki að sök því nánast í hvert skipti sem Brilli skaut í hringinn þá hirtu Stólarnir fráköstin og uppskáru fleiri tilraunir til að skora. Eftir rúmlega þriggja mínútna leik í síðari hálfleik var staðan orðin 65-31 og var munurinn um 30 stig til loka þriðja leikhluta en Pétur setti þá niður tvö víti og kláraði stigaskor sitt í leiknum, var kominn með 29 stig, og staðan 74-45.

Eins og gefur að skilja var fjórði leikhluti algjörlega óspennandi með öllu og bara spurning hvort gestirnir næðu að lagfæra ljóta stöðu sína. Það fór svo að Tindastóll sigraði með 22 stiga mun og lokatölur 95-73.

Sem fyrr segir átti Pétur frábæran leik en kappinn hafði haft frekar hægt um sig í fyrstu leikjum tímabilsins. Hann minnti rækilega á sig í kvöld, gerði 29 stig og átti sjö stoðsendingar. Framlagshæstur í liði Tindastóls var engu að síður Urald King sem gerði 16 stig og tók 17 fráköst auk þess sem hann stal fjórum boltum, átti fimm stoðsendingar og fiskaði fimm villur. Danero Thomas átti sömuleiðis fínan leik í sókn og vörn og skilaði 16 stigum. Í viðtali á Vísir.is, eftir leik, hældi  Israel Martin, þjálfari Tindastóls, öðrum leikmönnum liðsins sem kannski eru ekki jafn áberandi í tölfræðiþáttum leiksins. Þannig var varnarleikur og pressa Viðars og Hannesar alveg mögnuð í leiknum og hjálparvörn Dino Butorac sömuleiðis. Króatinn er flott viðbót við hóp Tindastóls og skilar jafnan 10-12 stigum í leik.

Það var fátt um fína drætti í liði Njarðvíkur. Jeb Ivey fær örugglega martraðir næstu nætur þar sem Viðar og Hannes leika stór hlutverk. Logi Gunnars var með 13 falleg stig en enginn leikmaður var með verri +/- tölur en hann á vellinum en á meðan hann var inn á tapaði Njarðvík með 30 stigum. Stigahæstur gestanna var Mario Matasovic með 16 stig og hann tók einnig tíu fráköst.

Tölfræði af vef KKÍ >

Eftir leiki kvöldsins og tap Stjörnunnar í Keflavík er lið Tindastóls eitt á toppi Dominos-deildarinnar. Það reynir enn meir á liðið í næstu umferð en þá mæta strákarnir meistaraliði KR í DHL-höllinni í Vestubæ Reykjavíkur og fer leikurinn fram föstudaginn 2. nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir