Raunveruleikatékk í Síkinu þegar Njarðvík sótti stigin

Pavel flytur söfnuði sínum fagnaðarerindið. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pavel flytur söfnuði sínum fagnaðarerindið. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það reyndist boðið upp á örlítið raunveruleikatékk í Síkinu í gær þegar Tindastólsmenn tóku á móti spræku liði Njarðvíkinga. Ekki vantaði eftirvæntinguna og vonarneistann í glaðværa og dugmikla stuðningsmenn Stólanna en að þessu sinni náðu þeir ekki alveg að kveikja neistann í sínum mönnum í fyrsta heimaleik liðsins undir stjórn Pavel Ermolinski. Lið Njarðvíkur, sem er eitt af þremur bestu liðum Subway-deildarinnar sem stendur, reyndist sterkari aðilinn í leiknum og gátu eiginlega ekki annað en unnið leikinn miðað við gjafirnar sem vörn Stólanna færði þeim ítrekað. Lokatölur 86-94.

Það fór auðvitað ekki svo að það væri nóg fyrir Pavel að stökkva í stuttbuxurnar og ýta bara á takka til að búa til topplið. Það þarf tíma til að stilla liðið af eftir þrautagöngu vetrarins auk þess sem Stólarnir voru að spila sinn fyrsta leik eftir að Zoran hvarf á braut.

Stólarnir fóru reyndar prýðilega af stað og sýndu góðan leik í fyrsta leikhluta, liðin skiptust á að eiga áhlaup, Stólarnir alltaf fyrri til en Njarðvíkingar svöruðu. Nánast allir leikmenn Stólanna sem stigu inn á parketið komu með framlag og stig og liðið lofaði góðu. Staðan var 24-18 heimamönnum í vil að loknum fyrsta leikhluta en svo komu menn andlausir til leiks í öðrum leikhluta, Njarðvíkingar náðu 0-11 kafla og tóku völdin. Mario Matasovic skellti í þrist þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður, kom gestunum átta stigum yfir, 29-37, og hélt kappinn sennilega að jólin væru komin aftur því hann fékk ítrekað óratíma til að stilla miðið utan 3ja stiga línunnar. Mest náðu gestirnir tólf stiga forystu en staðan í hálfleik var 41-51.

Tindastólsliðið þurfti því á því að halda að koma sterkt til leiks í síðari hálfleik og því skellur að gestirnir gerðu átta fyrstu stigin og náðu 18 stiga forystu, 41-59. Þá loks vöknuðu menn upp við vondan draum, Drungilas og Pétur skelltu í þrista og á tveggja mínútna kafla var munurinn minnkaður í tíu stig. Raggi minnkaði muninn í sex stig, 57-63, þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta en Njarðvíkingar leiddu að honum loknum, 59-65, og allt útlit fyrir spennandi lokamínútur. Því miður náðu heimamenn ekki upp alvöru stemningu í varnarleikinn og virtust gestirnir aldrei vera í hættu að tapa leiknum. Þó náðu Stólarnir að minnka muninn í þrjú stig, 82-85, þegar Pétur setti niður fjórða þrist sinn í leiknum þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Keyshawn hélt muninum í þremur stigum með því að svara tvívegis körfum gestanna en heimamenn voru ekki þess megnugir að ganga á lagið að þessu sinni, þrátt fyrir frábæran stuðning áhorfenda, og gestirnir settu niður sigurstigin full auðveldlega.

Varnarleikur Tindastóls í öðrum leikhluta reyndist dýrkeyptur að þessu sinni en þá gerðu gestirnir 33 stig á meðan Stólarnir gerðu 17. Þetta bil náðu heimamenn ekki að brúa. Þrátt fyrir tap eru stuðningsmenn bjartsýnir á að Pavel og félagar nái að rétta kúrsinn og gaman að sjá að þrátt fyrir tap þá var sungið fyrir Stólana í leikslok – þvílíkur heiður að fá að spila fyrir framan svona stuðningsmenn! 

Keyshawn skilaði fínu framlagi í leiknum, var með 27 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar. Pétur var með 16 stig, fimm fráköst og fjórar stoðsendingar og Taiwo skilaði 13 stigum og sjö fráköstum og Drungilas 10 stigum. Aðrir voru með minna og það má segja að Arnar hafi bara alls ekki fundið fjölina sína í gær. Richotti var stigahæstur gestanna með 20 stig, Mario var með 17 stig og Basile 14. Liðin áttu álíka margar stoðsendingar, Stólarnir voru heldur sterkari í frákastabaráttunni en skotnýting gestanna var umtalsvert betri – enda varnarleikur heimamanna ekki í lagi í gær. Þrátt fyrir tap er engin ástæða til að örvænta, Njarðvíkurliðið er ógnarsterkt og Stólarnir þurfa að stilla leik sinn betur til að eiga möguleika gegn þeim eins og er.

Næsti leikur Tindastóls er sömuleiðis heimaleikur en Höttur Egilsstöðum heimsækir Krókinn 2. febrúar. Þá þarf að sækja tvö stig. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir