Rúnar Már mætir á Old Trafford

Rúnar Már í Manchester United búningnum. MYNDIR Í EINKAEIGN
Rúnar Már í Manchester United búningnum. MYNDIR Í EINKAEIGN

Það er óhætt að fullyrða að einn af draumum skagfirsku knattspyrnukempunnar Rúnars Más Sigurjónssonar sé við það að rætast en Rúnar, sem spilar sem atvinnumaður með liði Astana frá Kasakstan, mun að öllu óbreyttu skeiða um Old Trafford leikvanginn í Manchester eftir viku. Lið Rúnars er í sama riðli og Manchester United í Evrópu-deildinni í knattspyrnu og liðin mætast í Englandi þann 19. september nk. 

Rúnar Már hefur verið fjallgrimmur stuðningsmaður Manchester United frá fyrstu tíð og sama má segja um nánustu ættingja hans. Má jafnvel fullyrða að áhuginn og stuðningurinn við MU hafi verið gegndarlaus. Samkvæmt heimildum Feykis þá munu um 40 fjölskyldumeðlimir Rúnars fljúga til Englands í næstu viku til að sjá strákinn berjast við hetjurnar í Manchester United. 

Það munu örugglega einhverjir þeirra verða í vandræðum með að hvetja lið Astana gegn MU. Að sögn Helgu Láru, systir Rúnars, „...eru ALLIR United fan (í báðum ættum) nema ég sem held með Liverpool!“ Hún segir að þó munu flestir í fjölskyldunni gera undantekningu að þessu sinni og halda með Astana. 

Rúnar Már hefur verið að spila vel með liði Astana en hann færði sig frá Sviss til Kasakstan í sumar. Meðal annars skoraði hann nokkur mikilvæg mörk í undankeppni Evrópudeildarinnar. Nú á dögunum spilaði hann með íslenska landsliðinu. Hann kom inn á í sigurleik gegn Moldavíu og lék allan leikinn gegn Albaníu. Þrátt fyrir tap í þeim leik komst Rúnar Már vel frá sínu, átti stóran þátt í báðum mörkum Íslands, og var tvímælalaust einn af þremur bestu leikmönnum liðsins í leiknum.

Blaðamann Feykis rámaði í það að Rúnar hefði yfirleitt alltaf verið í Manchester United gallanum og með boltann á tánum hér áður fyrr. Það var því alveg athugandi að kanna hvort mamma hans, Sigurlaug Konráðsdóttir, ætti ekki einhverjar myndir af stráknum til að lána Feyki til birtingar í tilefni leiksins. Þær voru að sjálfsögðu til og augljóst að Rúnar hefur lengi dreymt um að spila á Old Trafford­ – en þá sennilega í Júnæted-búningnum. 

Feykir mun segja frá ferðalaginu á leik Manchester United og Astana síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir