Séra Hjálmar fór holu í höggi í þriðja sinn

Á 4. flöt Urriðavallar fyrir tveimur vikum. Mynd af Facebook.
Á 4. flöt Urriðavallar fyrir tveimur vikum. Mynd af Facebook.

Sumir eru heppnari en aðrir og má segja að Hjálmar Jónsson, fv. prófastur á Sauðárkróki og síðar Dómkirkjuprestur, sé einn þeirra en hann náði þeim stórmerka áfanga að fara holu í höggi í þriðja sinn sl. mánudag. „Þetta er víst draumur okkar, kylfinganna. Fyrst hitti ég svona vel fyrir fimm árum en núna með hálfs mánaðar millibili. Öll skiptin á Urriðavelli í Garðabæ en hann er minn heimavöllur og ég leik hann oftast. Við hjón búum í Urriðaholtinu svo að það er stutt að fara,“ segir Hjálmar.

Aðspurður um afrek mánudagsins segir hann að þegar þeir félagarnir gengu upp á 8. teiginn var hann að tala um að aðstæður væru nákvæmlega eins og þegar hann fór holu í höggi á þessari braut. „Þéttingsvindur og holustaðsetningin eins. Sló líka núna með sandjárninu, þetta 105 metra högg. Hár bolti, sem lenti u.þ.b. þrjá metra fyrir framan holuna og rann svo áfram ljúft og fallega sína leið.“

Draumahögg hvers golfara er að fara holu í höggi en ekki tekst það hjá öllum. Á vef Einherjaklúbbsins, sem heldur utan um skráningu þeirra sem fara holu í höggi, segir að einungis 1% kylfinga ná þessum áfanga árlega.

Nánar er rætt við Hjálmar í Feyki sem kemur út í dag en þar segir hann frá áhrifavöldum í golfinu bæði lífs og liðnum, en Friðrik læknir var duglegur að reyna að smita hann af golfbakteríunni á gamla Skarðsvellinum við Sauðárkrók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir