Sigur og tap hjá liðum Tindastóls

Aldís María í leik gegn liði Víkings sl. sumar. MYND: ÓAB
Aldís María í leik gegn liði Víkings sl. sumar. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls spiluðu sitt hvorn leikinn á Kjarnafæðismótinu í gær og var leikið á Akureyri. Stelpurnar mættu FHL, sameiginlegu liði Austfirðinga, og höfðu sigur en strákarnir lutu í gervigras gegn liði Völsungs.

Strákarnir hófu leik kl. 17 og það tók andstæðingana aðeins sjö mínútur að koma boltanm í markið en þá skoraði Gestur Sörensson. Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Eysteinn Bessi Sigmarsson metin en sigurmark leiksins kom á 33. mínútu en þar var á ferðinni Árni Fjalar Óskarsson. Ekkert mark var því skorað í síðari hálfleik en tveir leikmanna Völsungs fengu að líta rauða spjaldið, fyrst Óskar Ásgeirsson á 77. mínútu og síðan Jakob Gunnar Sigurðsson á 90. mínútu. Ekki tókst Stólunum að nýta sér liðsmuninn á þessum skamma tíma og 1-2 tap því staðreynd.

Stólarnir hafa nú spilað alla fjóra leiki sína í mótinu og hefja ekki leik í Lengjubikarnum fyrr en í byrjun mars. Þeir nældu í eitt stig í þessum fjórum leikjum.

Stelpurnar mættu Austfirðingum á Greifavellinum og þar leit eina mark leiksins ljós strax á 2. mínútu og það gerði Aldís María. Bæði lið tefldu fram ansi ungum mannskap og í raun aðeins þrír leikmenn á skýrslu sem fæddust á síðustu öld – semsagt 23 ára eða eldri. Yngst á vellinm var Elísa Bríet Björnsdóttir frá Skagaströnd en hún verður 15 ára á þessu ári. Bekkjarsystir hennar frá Skagaströnd, Birgitta Rún Finnbogadóttir, leysti hana síðan af á 86. mínútu.

Lið Tindastóls á eftir að spila einn leik á Kjarnafæðismótinu, gegn liði Völsungs, sem fram átti að fara 4. febrúar. Honum hefur hins vegar verið frestað þar sem lið Tindastóls á leik gegn Keflavík daginn eftir í Lengjubikarnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir