Skotfélagið Markviss fagnar 30 árum

Nýuppsett skilti við aðkomuna að svæði félagsins.
Nýuppsett skilti við aðkomuna að svæði félagsins.

Skotfélagið Markviss fagnaði 30 ára afmæli á laugardaginn, þann 2. september, en félagið hefur starfað óslitið frá því það var stofnað af nokkrum áhugamönnum á Hótel Blönduósi þann 2. september 1988.

Í grein sem Guðmann Jónasson, gjaldkeri félagsins, ritar og birtist á Húni.is á afmælisdaginn er farið í grófum dráttum yfir sögu félagsins. Þar kemur m.a. fram að meðal fyrstu verkefna félagsins var að finna hentuga aðstöðu fyrir skotæfingar og fékk félagið að lokum úthlutað svæði austan flugvallarins þar sem það hefur haft aðstöðu síðan.

Starfsemi félagsins var kraftmikil fyrstu árin en undir aldamótin hafði dofnað mjög yfir henni eftir að virkustu félagarnir höfðu ýmist dregið sig í hlé eða flutt úr byggðarlaginu. Frá aldamótum hefur hins vegar verið jöfn og þétt uppbygging í félaginu og eru félagar duglegir við að byggja og bæta aðstöðu sína. Auk þess eru árlega haldin Landsmót STÍ á svæðinu.

„Skotfélagið Markviss er í dag eitt af virkustu aðildarfélögum STÍ og á keppnisfólk í fremstu röð bæði í hagla- og kúlugreinum. Félagið er eitt af fyrirmyndarfélögum Íþrótta og Ólympíusambands Íslands og var fyrst aðildarfélaga USAH til að hljóta þá nafnbót árið 2016,“ segir í grein Guðmanns á Huni.is.

Núverandi stjórn félagsins skipa: Jón Brynjar Kristjánsson, formaður, Guðmann Jónasson, gjaldkeri og Snjólaug M. Jónsdóttir, ritari. Meðstjórnendur eru Einar Stefánsson og Þorsteinn Hafþórsson. 

Svo skemmtilega vildi til að Snjólaug María Jónsdóttir, ritari Markviss, fagnaði afmælinu með því að verja bikarmeistaratitil sinn á Bikarmóti STÍ í leirdúfuskotfimi en mótið fór fram á velli Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi um helgina. Snjólaug María sigraði í kvennaflokki á mótinu og er því bikarmeistari, Þórey Inga Helgadóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur varð í öðru sæti og Dagný Huld Hinriksdóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur í þriðja sæti.

Grein Guðmanns sem birtist á Huni.is má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir