Slæmur þriðji leikhluti felldi Stólana í Sláturhúsinu

Tindastólsmenn léku fyrsta leik sinn á nýju ári í Keflavík í gærkvöldi. Leikurinn var jafn og skemmtilegur í fyrri hálfleik og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Staðan var enda hnífjöfn í hálfleik, 47-47, en í þriðja leikhluta sýndu heimamenn gestunum sparihliðina og skoruðu nánast að vild á meðan sóknarleikur Tindastóls var þvingaður. Að leikhlutanum loknum munaði 18 stigum á liðunum og þrátt fyrir ágætt áhlaup Stólanna þá fór svo að lokum að Keflavík sigraði 95-84.

Tindastólsmenn höfðu vonast eftir að geta teflt fram nýjum leikmanni, Deremy Geiger, en þegar til kom þá fékkst ekki leikheimild í tíma fyrir kappann. Hann var því ekki gjaldgengur í Sláturhúsinu suður með sjó og var það vissulega skarð fyrir skildi. Jafnt var á flestum tölum fyrstu mínútur leiksins en um miðjan leikhlutann náðu Keflvíkingar sex stiga forystu og leiddu til að mynda 26-19 þegar ein og hálf mínúta var eftir. Þá tóku Stólarnir sig til og gerðu níu stig í röð og voru yfir, 26-28, að leikhlutanum loknum. Í öðrum leikhluta skiptust liðin á um að hafa forystuna og munurinn aldrei meiri en þrjú stig. Perkovic setti niður sinn annan þrist rétt fyrir hlé en Milka stal boltanum og setti niður þrist á lokasekúndu hálfleiksins og jafnaði leikinn 47-47. Líkt og í leiknum í haust reyndist Milka Stólunum erfiður og var kominn með 21 stig í hálfleik. Betur gekk að loka á þennan magnaða gaur í síðari hálfleik en þá hrökk bara félagi hans, Khalil Ahmad, í gang. 

Lið Tindastóls hélt í við heimamenn framan af þriðja fjórðungi og aðeins munaði fimm stigum, 62-57, þegar leikhlutinn var hálfnaður. Ahmed, Hörður Axel og Deane Williams tóku leikinn yfir það sem eftir lifði fjórðungsins og á meðan Stólarnir gerðu þrjú stig gerðu þeir þremenningarnir 16 og staðan því 78-60. Það var því ansi mikil brekkan hjá liði Tindastóls og betur gekk að loka á lið heimamanna á upphafsmínútum lokafjórðungsins – kannski helst vegna þess að Ahmad og Williams voru hvíldir. Brodnik minnkaði muninn í tíu stig með þristi, 80-70, en Ahmad og Milka gerðu næstu fimm stig. Þristar frá Simmons og Viðari löguðu stöðuna á ný fyrir gestina og Bilic minnkaði muninn í sjö stig þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Nær komust Stólarnir ekki, þeir misstu bæði Pétur og Simmons útaf með fimm villur á lokakaflanum, og Keflvíkingar fögnuðu tveimur mikilvægum stigum.

Bilic var stigahæstur í liði Tindastóls með 18 stig en hann, Brodnik og Pétur fundu ekki fjölina að þessu sinni og hittu illa fyrir utan 3ja stiga línuna. Viðar og Simmons gerðu betur og settu báðir niður þrjá þrista í samtals sjö tilraunum. Viðar var með besta framlag Tindastólsmanna (20) og skilaði 13 stigum í sjö skotum. Simmons var með 17 stig, Brodnik 14, Helgi Rafn 7, Pétur og Perkovic 6 og Friðrik 3. Risinn Perkovic reyndi fimm skot í leiknum og öll fyrir utan 3ja stiga línuna. 

Lið Tindastóls tók 29 fráköst í leiknum á meðan heimamenn hirtu 41 frákast. Stólarnir réðu illa við fjórmenningana sterku í liði Keflavíkur; Ahmad gerði 27 stig líkt og Milka, Williams skilaði 13 stigum og Hörður Axel 12. Næsti leikur Tindastóls er hér heima á föstudaginn kl. 20:15 en þá koma Njarðvíkingar í heimsókn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir