Stjörnustúlkur höfðu betur gegn liði Tindastóls

Jayla Johnson var 36 stig gegn Stjörnunni. MYND AF NETINU
Jayla Johnson var 36 stig gegn Stjörnunni. MYND AF NETINU

Stólastúlkur spiluðu í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ í dag í fimmtánda leik sínum í 1. deild kvenna. Heimastúlkur í Stjörnunni hafa á að skipa sterku liði og tróna á toppi deildarinnar með þrettán sigurleiki og aðeins eitt tap. Lið Tindastóls hefur aðeins unnið tvo leiki í vetur en er að reyna að ná að koma fótunum undir sig. Leikurinn í dag var sveiflukenndur en aðeins tveimur stigum munaði í hálfleik. Heimastúlkur byggðu upp forskot í þriðja leikhluta og unnu að lokum sigur, 86-72.

Lið Stjörnunnar hafði forystuna í fyrsta leikhluta, leiddu 11-4 þegar tæpar sex mínútur voru liðnar og voru yfir, 20-9, þegar annar leikhluti hófst. Þá létu gestirnir finna fyrir sér og sýndu góðan leik. Jayla kom Stólastúlkum yfir, 22-23, þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar en um miðjan leikhlutann náðu okkar stúlkur 11-0 kafla og breyttu stöðunni úr 28-25 í 28-36 en þá voru þrjár mínútur fram að hléi. Þann tíma nýtti lið Stjörnunnar vel og gerði tíu stig í röð og leiddu því í hálfleik, staðan 36-38.

Jayla hóf síðari hálfleik vel fyrir Tindastól, jafnaði leikinn 40-40 og Eva Rún kom sínu liði yfir með tveimur vítum en í kjölfarið náði lið Stjörnunnar sterkum kafla og höfðu náð tólf stiga forystu þegar leikhlutinn var hálfnaður. Þetta bil gekk Stólastúlkum illa að minnka en staðan að loknum þriðja leikhluta var 69-55. Um miðjan fjórða leikhluta náðu gestirnir smá áhlaupi og Emma Katrín minnkaði muninn í sjö stig þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Stuttu síðar náði lið Stjörnunnar 9-0 kafla og gerði þar með út um leikinn.

Jayla Johnson var stigahæst í liði Tindastóls með 36 stig en mestu framlagi skilaði Emese en hún gerði 13 stig og tók 24 fráköst. Eva Rún gerði síðan níu stig en hún tók sjö fráköst og átti sex stoðsendingar. Tvær ungar og efnilegar stúlkur í liði Stjörnunnar drógu vagninn fyrir Garðbæinga; Diljá Ögn Lárusdóttir var með 35 stig og Vestfirðingurinn Kolbrún Ármannsdóttir 27 stig og níu fráköst en hún er aðeins 15 ára.

Lið Tindastóls rústaði Stjörnunni í fráköstum, hirtu 61 frákast á meðan heimastúlkur tóku 41. Lið Tindastóls hitti betur innan 3ja stiga línunnar en ógnin var lítil sem engin utan hennar. Liðið tók aðeins 12 3ja stiga skot og hitti tveimur á meðan Stjarnan setti niður átta í 35 tilraunum sem er reyndar ekkert til að hrópa húrra yfir. Tvær 3ja stiga körfur skila hins vegar aðeins sex stigum á töfluna en átta stykki 24 stigum. Heimastúlkur tóku síðan 30 víti en lið Tindastóls 16.

Þá voru Stólastúlkur – ótrúlegt og getur varla verið satt – með 32 tapaða bolta en lið Stjörnunnar níu.

Næst eiga stelpurnar heimaleik 1. febrúar en þá kemur lið KR í heimsókn sem er um miðja deild. Þá væri nú gaman að taka tvö stig. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir