Stólarnir daufir í dálkinn

Horft til himins í fyrri leik Tindastóls og Hauka í haust. Helgi Rafn og Danero í baráttunni. MYND: HJALTI ÁRNA
Horft til himins í fyrri leik Tindastóls og Hauka í haust. Helgi Rafn og Danero í baráttunni. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn héldu í víking suður í Hafnarfjörð í gær og léku þar við lið Hauka sem hefur átt á brattann að sækja í vetur. Ekki hljóp beinlínis á snærið hjá okkar mönnum sem komu tómhentir heim í Skagafjörð eftir frammistöðu þar sem töluvert skorti upp á gleði og baráttu auk þess sem skyttur Stólanna voru langt frá því að fylla sinn kvóta. Eftir að hafa leitt í hálfleik, 38-41, þá gekk sóknarleikur Tindastóls illa í síðari hálfleik og Hafnfirðingar sem sigruðu að lokum 73-66.

Enn vantaði Urald King í lið Tindastóls en hann meiddist sem kunnugt er í fyrsta leik ársins og síðan hafa Stólarnir virkað daufir í dálkinn og hreinlega langt í frá sjálfum sér líkir. Þá voru Stólarnir einnig án Friðriks Stefáns. Ekki það að flest liðin í deildinni notuðu jól og áramót til að styrkja sig og Stólarnir svo sem ekki undantekning þar. Njarðvíkingar seigluðust í enn einn sigurinn eftir strögl á Hlíðarenda og þeir eru nú komnir með fjögurra stiga forystu á lið Tindastóls í Dominos-deildinni.

Haukar, sem hafa oft reynst liði Tindastóls erfiiðir og leikir liðanna jafnir, fóru betur af stað en upphafsmínúturnar í Schenkerhöllinni voru þó ansi dauflegar og lítið skorað. Þegar sjö mínútur voru liðnar var staðan 12-6 fyrir Hauka en í kjölfarið kom góður kafli Stólanna, Hannes Ingi setti einu körfu sína í leiknum (þrist) og kom Tindastóli yfir, 12-13, og Pétur bætti tveimur stigum við. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 15-18. Leikurinn var jafn og spennandi í öðrum leikhluta. Haukar komust yfir, 24-21, Dino og Pétur svöruðu og komu Stólunum í 24-28 og um miðjan leikhlutan jók Brynjar Þór muninn í átta stig, 26-34, með þristi. Haukarnir komu til baka eftir góðar körfur frá Russel Woods Jr. og Hilmari Henningssyni sem voru bestu menn vallarins að þessu sinni. Staðan í hálfleik var 38-41.

Oft í vetur hefur þriðji leikhluti verið Stólunum happadrjúgur og liðið stigið upp í varnarleiknum sem hefur á móti gefið þægilegar körfur. Stuðningsmenn liðsins vonuðust því til að þessa saga endurtæki sig, Stólarnir myndu skipta úr öðrum gír í þann þriðja eða jafnvel fjórða, en því miður skiptu þeir að þessu sinni í fyrsta. Það hvorki gekk né rak í sókninni þó reyndar sé ekki hægt að nöldra mikið undan varnarleiknum sem var ágætur mest allan leikinn, þó liðið færi halloka í frákastabaráttunni (49/38). Brynjar kom Stólunum yfir 44-51 um miðjan þriðja leikhluta en síðustu tæpar fimm mínútur leikhlutans gerðu Haukar 13 stig en Stólarnir eitt. Staðan 57-52.

Pétur og Helgi Rafn gerðu fyrstu körfur fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í eitt stig en lítið gekk í sóknarleik beggja liða. Haukar komust loks á blað þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum með þristi frá Hilmari og Hjálmar Stefáns setti annan þrist skömmu síðar. Staðan var nú 63-56 og Stólarnir reyndu nú ítrekað að svara með þristum en skotin geiguðu og Haukarnir héldu yfirleitt 4-8 stiga forystu. Dino minnkaði muninn í fjögur stig, 70-66, þegar 40 sekúndur voru eftir en nær komust Stólarnir ekki og Haukar fögnuðu sigri, 73-66.

Tölfræði á vef KKÍ >

Brynjar spilaði hvað best í liði Tindastóls, skilaði 16 stigum og tók sjö fráköst. Þá var Pétur sprækur þó hann virkaði ekki alveg heill eftir meiðslin en hann gerði 15 stig og átti sjö stoðsendingar. Dino var með 14 stig en Danero náði sér engan veginn á strik, gerði sex stig og tók sex fráköst. Helgi Rafn gerði sömuleiðis sex stig og tók átta fráköst. Haukar spiluðu mjög góða vörn á lið Tindastóls og náðu að gera skyttum gestanna mjög erfitt fyrir. Undir körfunni höfðu þeir síðan Russel Woods Jr. sem tók 17 fráköst í leiknum og þar af níu sóknarfráköst. Kappinn var með 19 stig en stigahæstur í liði Hauka var Hilmar Henningsson sem gerði 20 stig. Þá voru Hjálmar og Kristinn Marinós sterkir.

„Það er erfitt að vinna alla útileiki og deildin er orðin jafnari og sterkari. Við þurfum bara að vera duglegir og hafa trú á verkefninu, þá lagast þetta,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, við Vísir.is að leik loknum. 

Næsti leikur Tindastóls er í Síkinu næstkomandi þriðjudag en þá verður risaslagur í Geysisbikarnum. Það er lið Stjörnunnar sem kemur í heimsókn en Garðbæingar hafa verið á ágætum spretti í síðustu leikjum. Leikurinn hefst kl. 19:30 á gamla tímanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir