Stólarnir nældu í gott stig á Ísafirði

Arnar jafnar leikinn eftir góðan undirbúning frá Stefan Lamanna. SKJÁMYND
Arnar jafnar leikinn eftir góðan undirbúning frá Stefan Lamanna. SKJÁMYND

Átjanda umferðin í 2. deild karla í knattspyrnu var leikin í dag. Stólarnir fengu það strembna verkefni að heimsækja Vestra á Ísafirði en lærisveinar Bjarna Jóh eru í toppbaráttu deildarinnar, enda með vel skipað lið en þar eru m.a. átta erlendir leikmenn. Þrátt fyrir að spila einum færri megnið af leiknum náðu Stólarnir í dýrmætt stig í fallbaráttunni en lokatölur voru 1-1.

Snemma leiks átti Konni aukaspyrnu sem hafnaði í stönginni eftir viðkomu í vanarvegg Vestramanna. Fyrsta mark leiksins kom á 14. mínútu en þá fengu heimamenn á Ísafirði víti eftir að Andrew Pew átti hörkuskot eftir hornspyrnu en Arnar Skúli var svo óheppinn að verja með tilþrifum með hendinni – sem hefði verið í lagi væri hann markvörður. Dómarinn dæmdi víti og sýndi Arnari Skúla rauða spjaldið þrátt fyrir nokkrar mótbárur. Sergine Modou Fall skotaði úr spyrnunni en Santiago var hársbreidd frá því að verja.

Eftir rúmar 20. mínútur var lukkan með Stólunum þegar heimamenn skutu boltanum í þverslá en þaðan fór boltinn í Santiago markvörð en snúningurinn á boltanum var Úrúgvæanum hliðhollur því hann snérist af marklínunni og í hendurnar á Santiago. Hann dúndraði boltanum umsvifalaust út í sjó þar sem Hólmar Skúla lá meiddur á vellinum. Heimamenn voru frekar súrir þar sem þetta var þriðji boltinn sem fór í sjóinn þegar þarna var komið í leiknum. Hugað var að Hólmari utan vallar en leikurinn fór í gang á ný og Stólarnir náðu að koma boltanum á Konna sem sendi fram hægri kantinn þar sem Arnar Ólafs missti af boltanum. Vestramenn sendu þvert inn á miðjuna þar sem Stefan Lamanna kom askvaðandi og stal boltanum, lék inn á vítateig Vestra og sendi laglega fyrir markið þar sem Arnar var mættur og potaði boltanum í markið. Þetta gerðu Stólarnir á meðan þeir voru níu á vellinum.

Leikmenn Vestra pressuðu í síðari hálfleik en leikmenn Tindastóls gáfu hvergi eftir og fögnuðu að lokum sætu stigi á erfiðum útivelli. Vel að verki staðið, ekki síst í ljósi þess að liðið var án Bjarka þjálfara og varnartrölls sem tók út leikbann.

Með þessu stigi skriðu Stólarnir úr fallsæti, eru nú einu stigi ofar en Höttur, en næsti leikur er gegn Leikni á Fáskrúðsfirði sem er einmitt stigi ofar en lið Tindastóls nú þegar fjórar umferðir eru eftir af keppnistímabilinu. Það verður því sannkallaður sex stiga leikur. Stólarnir verða þó að koma vel stemmdir í þann leik því samkvæmt heimildum Feykis verða fimm leikmenn í banni; Santiago markvörður, Arnar Skúli, Arnar Ólafs, Jónas og Jón Gísli, en Bjarki kemur þó inn í liðið á ný. Þá er ekki ólíklegt að Hólmar missi af leiknum vegna meiðsla.

Áfram Tindastóll!

Hér er hægt að horfa á leikinn í fínum gæðum >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir