Stólarnir sigldu með himinskautum á heimaslóðum

Það var gæsahúðarmóment að sjá Stólunum fagnað í troðfullu Síkingu í kvöld. SKJÁSKOT
Það var gæsahúðarmóment að sjá Stólunum fagnað í troðfullu Síkingu í kvöld. SKJÁSKOT
Lið Tindastóls og Keflavíkur mættust í gærkvöldi í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. Stólarnir unnu fyrsta leikinn í framlengdum leik en að þessu sinni þurfti ekkert slíkt til því heimamenn sigldu með himinskautum í síðari hálfleik og kaffærðu Keflvíkinga sem sáu aldrei til sólar. Lokatölur 107-81 og lið Tindastóls komið í góða stöðu í einvíginu.

Skagafjörðurinn er orðinn frægur fyrir að brydda upp á geggjuðustu körfuboltaveislum sem völ er á og leikurinn í gærkvöldi var engin undantekning. Veislan hófst á planinu sunnan við Síkið þar sem öllu var tjaldað til – þar með talið veislutjaldi – og stuðningsmenn voru farnir að streyma að þremur tímum fyrir leik og hituðu sig upp með lifandi tónlist, hömmurum og svaladrykkjum í 12 stiga hita og Krókslogni. Húsið fylltist síðan fljótt og var nánast fullt þegar leikmenn mættu í Síkið en talið er að um 1500 manns hafi verið á leiknum. Algjör snilld!

Stólarnir fóru vel af stað en enginn þó betur en Taiwo Badmus sem var á eldi. Stólarnir náðu undirtökunum, komust í 9-2, en hlutirnir breytast oft hratt í körfunni og Keflvíkingar voru snöggir að brúa bilið. Þegar átta mínútur voru liðnar var staðan 21-20 en fimm stig frá Pétri og tvö víti frá Tai sáu til þess að Stólarnir höfðu ágætt forskot eftir fyrsta leikhlutann. Staðan 28-21. Lið Tindastóls hélt frumkvæðinu fyrst um sinn í öðrum leikhluta en Keflvíkingar náðu að draga úr hraða leiksins og Stólarnir duttu niður um tvo þrjá gíra og það var ekki góðs viti. Gestirnir jöfnuðu metin, 34-34, um miðjan leikhlutann en komust þó ekki yfir fyrr en David Okeke lagði boltann í körfuna þegar tæp mínúta var til hálfleiks. Arnar svaraði með silkiþristi og kom Stólunum í 43-42 en Igor Maric svaraði að bragði og gestirnir því með tveggja stiga forystu í hálfleik. Staðan 43-45.

Þriðji leikhluti var síðan lyginni líkastur hjá liði Tindastóls þar sem vörnin small og allir í takti, hvort sem var í vörn eða sókn. Keflvíkingar voru ráðvilltir og náðu ekkert að hægja á heimamönnum sem unnu leikhlutann 37-14 og höfðu því 21 stigs forystu fyrir lokaátökin. Milka gerði fyrstu sex stigin í fjórða leikhluta en heimamenn voru snöggir að rétta kúrsinn og næstu mínútur leiksins náðu gestirnir stuttum áhlaupum sem Stólarnir svöruðu fljótt fyrir. Á tæplega tveggja mínútna kafla skömmu fyrir leikslok náðu heimamenn 12-0 kafla áður en handklæðinu var endanlega kastað inn á og leikurinn þá í raun löngu afgreiddur af hálfu heimamanna.

Þau voru mörg glæsitilþrifin í þessum leik en pjakkarnir hans Pavels spiluðu þrjá leikhluta af fjórum nánast óaðfinnanlega og var þjálfarinn bersýnilega hinn ánægðasti í leikslok. Verkefninu er þó ekki lokið og menn verða að vera snöggir niður á jörðina því næsti leikur er í Keflavík nk, miðvikudag. Það má reikna með að heimamenn vilji hefna fyrir ófarirnar í gærkvöldi og koma sér inn í einvígið á ný.

Taiwo Badmus var magnaður í leiknum en hann gerði 25 stig, tók sjö fráköst og fiskaði ellefu villur á gestina. Þá var Arnar í banastuði en hann gerði 22 stig og var með sex þrista í sjö skotum. Keyshawn gerði 21 stig, Pétur 15 og Siggi 10 en allt lið Tindastóls var flott í kvöld og örugglega ekki margir leikir í Síkinu þar sem Stólarnir hafa sýnt jafn góðan leik. Enginn leikmaður Keflvíkinga gerði meira en tuttugu stig en Milka var stigahæstur með 17 stig en hann tók aðeins þrjú fráköst að þessu sinni.

Takk fyrir skemmtunina – áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir