Stólastúlkur fengu á baukinn í Breiðholti

Kvennalið Tindastóls.  MYND: GUNNHILDUR GÍSLA
Kvennalið Tindastóls. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA

Kvennalið Tindastóls sótti lið ÍR heim í Breiðholtið um liðna helgi. Stólastúlkur höfðu unnið fyrsta leik liðanna í haust en mættu að þessu sinni til leiks með hálf vængbrotið lið og sunnanstúlkur gengu á lagið. Lokatölur voru 91-52. 

Þrjá sterka pósta vantaði í lið Tindastóls en Þóranna Ósk hefur enn ekki fengið grænt ljós á að spila eftir að hafa fengið heilahristing í byrjun desember. Þá er Rakel Rós að ná sér eftir puttabrot og Kristín Halla var fjarri góðu gamni.

Það var því ansi lágvaxið lið sem steig dansinn fyrir Tindastól í Hertz-hellinum og byrjunin reyndist ansi brött því lið ÍR gerði fyrstu tíu stig leiksins. Stólastúlkur voru þó ekkert á því að gefast upp og minnkuðu muninn í 12-8 en staðan var 19-12 eftir fyrsta leikhluta. Þær héldu sér inni í leiknum fram yfir miðjan annan leikhluta en lið ÍR náði að auka forystuna síðustu mín-úturnar fyrir hlé og staðan 42-28 í hálfleik.

Breiðhyltingar gerðu síðan út um leikinn í byrjun þriðja leikhluta þegar þær gerðu 14 stig án þess að lið Tindastóls næði að svara. Tess gerði fyrstu stig Stólanna í síðari hálfleik þegar leikhlutinn var rétt tæplega hálfnaður en þegar síðasti leikhlutinn hófst var lið ÍR komið með rúmlega þrjátíu stiga forystu, 73-42, og munurinn hélt áfram að aukast til leiksloka.

Tess Williams var að venju atkvæðamest Stólastúlkna með 24 stig, sex fráköst, fjórar stoðsendingar og 14 fiskaðar villur. Marín Lind Ágústsdóttir var með átta stig en allt of snögg að ná sér í fimm villur. Lið ÍR rústaði stelpunum okkar í frákastabaráttuni, tók 63 fráköst á móti 27 Stólanna og þar lá hundurinn grafinn að þessu sinni.

Nú er lokið langri útileikja-hrinu Tindastóls og við taka að minnsta kosti fimm heimaleikir í röð en á laugardag kemur lið Njarðvíkur í heimsókn í Síkið. Nú er bara að mæta og hvetja Stólastúlkur til dáða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir