Stólastúlkur með flottan sigurleik í Njarðvík

Úr leik Njarðvíkur og Tindastóls. MYND AF KARFAN.IS
Úr leik Njarðvíkur og Tindastóls. MYND AF KARFAN.IS

Kvennalið Tindastól átti einn sinn besta leik í vetur þegar liðið sótti Njarðvík heim í gærkvöldi í næst síðasta leik sínum í 1. deild kvenna. Stólastúlkur náðu forystunni snemma leiks og héldu haus allan leikinn þrátt fyrir að heimastúlkur jöfnuðu leikinn nokkrum sinnum. Lokatölur í Njarðvík voru 63-69 fyrir Tindastól.

Lið Njarðvíkur hafði yfirhöndina á upphafsmínútum leiksins en eftir að Kristín Halla jafnaði leikinn 7-7, með þristi, náðu Stólastúlkur að komast yfir og var staðan 15-20 eftir fyrsta leikhluta. Þristar frá Valdísi Ósk og Karen Lilju um miðjan annan leikhluta gáfu liði Tindastóls gott forskot og það var orðið fimmtán stig eftir stökkskot frá Tess. Staðan 17-32. Þá skyndilega snérist leikurinn við og lið Njarðvíkur virtist loks ná að leysa svæðisvörnina sem lið Tindastóls beitti mest allan leikinn. Þær jöfnuðu leikinn 33-33 en Marín Lind, sem átti enn einn fínan leik í liði Tindastóls, sá til þess að lið Tindastóls var tveimur stigum yfir í hálfleik. Staðan 33-35.

Jafnræði var með liðunum í byrjun þriðja leikhluta en smá saman náði Tindastólsliðið tökum á leiknum og var komið fimm stigum yfir um miðjan leikhlutann, 39-44. Þær náðu upp góðri vörn og juku forystuna og eftir góðar körfur frá Tess, Valdísi og Evu Rún var staðan 41-53 þegar fjórði leikhluti hófst. Njarðvíkingar söxuðu á forskot Tindastóls þegar á leið og minnkuðu muninn í þrjú stig, 58-61, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Þá kom Tess Williams sterk inn hjá Stólunum og á skömmum tíma skoraði hún þrjú stig, stal boltanum og tók sóknarfrákast. Þetta gaf stelpunum smá andrými og lið Njarðvíkur náði ekki vopnum sínum og það voru því Stólastúlkur sem fögnuðu fínum sigri.

Tölfræði á vef KKÍ >

Tess var atkvæðamest í liði Tindastóls með 21 stig og 12 fráköst en auk þess átti hún sex stoðsendingar og stal boltanum sjö sinnum. Marín Lind var með 15 stig og Eva Rún 10 og þá átti Katrín Halla fínan leik, skilaði sjö stigum og tíu fráköstum. Valdís Ósk setti niður þrjá þrista í sjö tilraunum. Nú eiga stelpurnar aðeins eftir að mæta liði Þórs á Akureyri og það yrði ansi sætt ef við næðum loks sigri gegn Akureyringum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir