Stólastúlkur skelltu sér á topp 1. deildar með sigri á KR

Stólastúlkur fagna sætum sigri í Síkinu. MYND: SIGGA G
Stólastúlkur fagna sætum sigri í Síkinu. MYND: SIGGA G

Stólastúlkur sigla nú með himinskautum í 1. deild kvenna í körfunni og í kvöld gerðu þær sér lítið fyrir og lögðu topplið KR í parket. Það var ekki boðið upp á neina lognmollu í Síkinu því leikurinn varð grjótharður naglbítur þar sem úrslitin réðust í framlengingu. Vesturbæjarliðið leiddi með einu stigi þegar ein og hálf mínúta var eftir en síðustu sex stigin voru Stólastúlkna sem fögnuðu innilega í leikslok. Lokatölur 91-86 og með sigrinum komst lið Tindastóls upp að hlið KR á toppi deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en gestirnir náðu frumkvæðinu þegar leið á fyrsta leikhlutann og leiddu 19-22 að honum loknum. Heimastúlkur voru fljótar að jafna í byrjun annars leikhluta og enn var jafnt, 27-27, þegar leikhlutinn var hálfnaður. Þá náði lið KR fimm stiga forystu, 30-35, en sjö stig í röð frá Aniku komu Stólastúlkum yfir og þristur frá Brynju Líf sá til þess að lið Tindastóls leiddi í hálfleik, 40-38.

Þriðji leikhluti var hnífjafn en heimastúlkur héldu þó frumkvæðinu og náðu mest sex stiga forystu, 46-40 eftir íleggju frá Emesu. Leikhlutinn endaði 18-18 og lið Tindastóls því enn með tveggja stiga forystu fyrir lokafjórðunginn og þar var áfram allt í járnum. Lið KR jafnaði en Stólastúlkur gáfu hvergi eftir og voru jafnan fetinu framar. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir negldi Brynja Líf niður þristi og munurinn átta stig, 77-69, og bjart yfir stuðningsfólki Stóla.

Ekki reyndist kálið sopið þótt í ausuna væri komið því nú bitu þær röndóttu í skjaldarrendur og 10-0 kafla og náðu tveggja stiga forystu, 77-79, þegar Butina setti niður annað víta sinna þegar níu sekúndur voru til leiksloka. Helgi tók þá leikhlé og lagði á ráðin og þegar þrjár sekúndur lifðu jafnaði Ify metin með íleggju. Staðan 79-79 að loknum venjulegum leiktíma og því framlengt. KR gerði fyrstu stig framlengingar og hafði frumkvæðið þar til lið Tindastóls skellti í lás í vörninni og gerði síðustu sex stig leiksins.

Stigahæst í liði Tindastóls var Ifunanya með 26 stig og hún hirti einnig 11 fráköst. Þá var Emese með 19 stig og 13 fráköst, Brynja Líf gerði 11 stig og tók 6 fráköst og Adriana Kasapa skilaði 10 stigum og 10 stoðsendingum. Annars má skoða tölfræði leiks hér >

Mikið undir og spennustigið hátt

„Leikurinn í kvöld var mjög jafn allan tímann. Leikmenn beggja liða vissu að toppsætið í deildinni væri undir í leiknum og KR eina liðið sem við höfðum ekki unnið í deildinni til þessa svo spennustigið var hátt,“ sagði Helgi Margeirs, þjálfari Tindastóls, við Feyki að leik loknum. „Við vorum nokkrum sinnum að mér fannst komnar með gott tak á leiknum en þá kom stundar einbeitingarleysi og þær komu sér aftur inn í leikinn. Svona gekk þetta fram og til baka út leiktímann þangað til við náðum að loka vörninni í lokin og klára leikinn.“

Hvað varstu ánægðastur með í leiknum? „Samheldnin og að þær héldu alltaf áfram sama á hverju gekk. Allar skiluðu þær hlutverki sínu og svo að á endanum var það vörnin sem vann leikinn fyrir okkur.“

Hvað þýðir þessi sigur á toppliði 1. deildar fyrir lið Tindastóls? „Þetta var stór sigur fyrir okkur sem „nýtt“ lið því núna erum við búnar að vinna öll liðin í deildinni sem gefur okkur mikið sjálfstraust.“

Hvert finnst þér vera einkenni liðsins? „Vörnin er okkar einkenni, á henni munum við falla eða sigra,“ sagði Helgi að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir