Stólatap í Fjarðabyggðarhöllinni

Úr leik Tindastóls og Fjarðabyggðar á Sauðárkróksvelli síðastliðið haust. MYND: ÓAB
Úr leik Tindastóls og Fjarðabyggðar á Sauðárkróksvelli síðastliðið haust. MYND: ÓAB

Þá er keppni farin af stað í 2. deild karla í knattspyrnu og hélt lið Tindastóls austur á Reyðarfjörð þar sem spilað var í Fjarðabyggðarhöllinni síðastliðinn laugardag. Skemmst er frá því að segja að heimamenn reyndust sterkari að þessu sinni og máttu Tindastólsstrákarnir þola 3-0 tap í fyrsta leik sumarsins.

Tveir erlendir leikmenn prýddu lið Tindastóls en Tanner Sica og Alvaro Igualada voru mættir til leiks. Í markinu stóð hins vegar Atli Dagur Stefánsson í fjarveru Ástralans Faerbers. Fjarðabyggð tefldi aftur á móti fram a.m.k. sjö erlendum leikmönnum og það var einmitt einn þeirra, Jose Luis Vidal Romero, sem gerði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og staðan var 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik. Gonzalo Bernaldo Gonzalez bætti síðan við tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla upp úr miðjum síðari hálfleik og gerði þar með út um leikinn.

Næsti leikur Tindastóls verður hér heima nk. laugardag en þá koma Breiðhyltingar úr ÍR í heimsókn. Ólíklegt verður að teljast að Gettó Húlígans mæti norður en þó rétt að fjölmenna á völlinn með raddböndin og klöppurnar í lagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir