Stórmeistarajafntefli á gervinu

Úr leik Tindastóls og Fjallabyggðar um helgina. MYND: JÓI SIGMARS
Úr leik Tindastóls og Fjallabyggðar um helgina. MYND: JÓI SIGMARS

Það var nágrannaslagur um síðustu helgi í Lengjubikarnum en þá lék lið Tindastóls fjórða leik sinn í keppninni og mætti liði Fjallabyggðar sem er sameinað lið gömlu góðu KS á Sigló og Leifturs frá Ólafsfirði. Stólarnir voru 1-0 yfir í hálfleik en heldur hitnaði í kolunum þegar leið að lokum leiks sem endaði 3-3 og tveir leikmanna Tindastóls fengu að líta rauða spjaldið í uppbótartíma.

Ágætis veður var á laugardaginn og ekki væsti um menn á gervigrasinu á Króknum. Hólmar Daði Skúlason kom Stólunum yfir á 14. mínútu en á 25. mínútu kom Eysteinn Bessi Sigmarsson inn á fyrir Jóhann Daða Gíslason. Sævar Gylfason jafnaði leikinn fyrir Fjallara á 60. mínútu en Eysteinn Bessi kom Stólunum yfir á ný tíu mínútum síðar. Grétar Áki Bergsson jafnaði á ný á 90. mínútu en Eysteinn var búinn að kvitta fyrir Stólana mínútu síðar. 

Á 93. mínútu, í uppbótartíma, jafnaði Sævar Gylfason fyrir Fjallabyggð og Jónas Aron Ólafsson og Hólmar Daði Skúlason fengu að líta gula spjaldið í annað skiptið í leiknum og sáu því rautt. 

Það verður hægt að horfa á nóg af fótbolta um næstu helgi því strákarnir mæta sterku liði Víðis í Garði nú á laugardag og hefst leikurinn kl. 14 á gervigrasinu á Króknum. Stólastúlkur mæta síðan liði Álftaness, sömuleiðis á Króknum, á sunnudag og hefst leikurinn kl. 14. Nú er bara að vona að álagið á gervigrasið sé ekki of mikið – ... grín!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir