Súrt tap suður með sjó

Marin Lind á fullri ferð í leik gegn liði Grindavíkur á dögunum. Hún var stigahæst í gær með 21 stig. MYND: HJALTI ÁRNA
Marin Lind á fullri ferð í leik gegn liði Grindavíkur á dögunum. Hún var stigahæst í gær með 21 stig. MYND: HJALTI ÁRNA

Stólastúlkur léku við sameinað lið Hamars/Þórs í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í gærkvöldi og þurftu sigur til að auka möguleika sína á sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna. Heimastúlkur þurftu sömuleiðis sigur og því útlit fyrir hörkuleik. Sú varð raunin og sérstaklega var síðari hálfleikurinn jafn og spennandi. Síðustu fjórar mínútur leiksins urðu hins vegar Stólastúlkum að falli því þá skoruðu þær ekki eitt einasta stig og lið H/Þ vann leikinn 71-60.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en körfur frá Fanneyju Maríu og Marín Lind færðu liði Tindastóls sjö stiga forystu í hálfleik, staðan 28-35. Heimastúlkur höfðu jafnað leikinn, 40-40, um miðjan þriðja leikhluta og við tóku mínútur þar sem allt var stál í stál. Eva Wium setti niður þrist undir lok leikhlutans, staðan 49-51, en Ása Lind lagaði stöðuna með því að setja niður eitt víti. Staðan 50-51 þegar lokakaflinn hófst.

Lið Tindastóls var skrefinu á undan framan af fjórða leikhluta en Hrafnhildur kom liði H/Þ yfir, 58-57, þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar. Eva Wium svaraði með þriggja stiga skoti og lið Tindastóls yfir þegar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka. Við tók tveggja mínútna kafli þar sem liðin gátu hreinlega ekki skorað. Stólastúlkur klikkuðu á skotum og misstu boltann ítrekað en það voru heimastúlkur sem vöknuðu úr dvalanum og settu tvo þrista á skömmum tíma. Þrautaganga Tindastóls hélt áfram allt til leiksloka og það var lið Hamars / Þórs sem vann lokakaflan 13-0 og þar með leikinn.

Svekkjandi úrslit svo ekki sé meira sagt en lið Tindastóls er nú í 4.-6. sæti deildarinnar með átta stig líkt og lið Hamars/Þórs og Stjörnunnar. Marín Lind var atkvæðamest í liði Tindastóls með 21 stig og fimm fráköst, Eva Wium var með 15 stig og sex fráköst og þá var Eva Rún með 11 stig og átta fráköst. Fanney María gerði sex stig á rúmum ellefu mínútu og hitti úr öllum sínum skotum. Í liði heimastúlkna var Fallyn Elizabeth Ann Stephens stigahæst með36 stig og hún hirti einnig 11 fráköst.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima á laugardaginn þegar sterkt lið Njarðvíkur kemur í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir