Sveiflukennt í Fjósinu

Axel og Friðrik verjast Skallanum Gabriel í leik í Síkinu í febrúar. MYND: HJALTI ÁRNA
Axel og Friðrik verjast Skallanum Gabriel í leik í Síkinu í febrúar. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll heimsótti nýfallið lið Skallagríms í gærkvöldi í 21. umferð Dominos-deildarinnar og var leikið í Fjósi þeirra Borgnesinga. Leikurinn var sveiflukenndur í meira lagi en heimamenn spiluðu líkt og topplið í fyrri hálfleik, léku Stólana grátt og leiddu 45-30 í leikhléi. Í síðari hálfleik snérist dæmið við en þá gerðu Tindastólsmenn 60 stig og sigruðu að lokum 82-90.

Sófastuðningsmenn Tindastóls hafa sennilega margir komið sér haganlega fyrir við skjáinn að loknum snotrum kvöldverði og átt von á þægilegu áhorfi og öruggum tveimur stigum í hús. Það var því líkast því að vera löðrungaður duglega að horfa á fyrri hálfleikinn í Fjósinu því Skallarnir mættu til leiks líkt og þeir væru að spila til úrslita um Borgarfjarðarbikarinn í hrútaþukli – semsagt afar einbeittir og til í slaginn. Þegar sex mínútur voru liðnar var staðan 15-3 og Björgvin (áður okkar) Ríkharðs eins og óður maður um allan völl. Vörn Skallanna var frábær og hvað eftir annað enduðu sóknir Stólanna á erfiðum skotum sem rötuðu ranga leið. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-9 og eftir stundarfjórðungsleik, og Matej Buovac vaknaðan af vetrarblundi, voru heimamenn komnir með 22 stiga forskot. Staðan 39-17 og þá loksins fóru Stólarnir að roðna í vöngum og stigu örlítið upp fyrir hlé. Hálfleikstölur 45-30.

Israel Martin sagði að leik loknum að menn hefðu aðeins rætt málin í hálfleik og hvað sem það nú var þá kom í það minnsta gjörbreytt Stólalið til leiks í síðari hálfleik. Nú fóru Tindastólsstrákarnir hamförum á meðan Sköllum féll allur ketill í eld. Stólarnir gerðu 14 fyrstu stig þriðja leikhluta og staðan eftir aðeins þriggja mínútna leik 45-44. Áfram héldu Stólarnir og voru komnir fjórum stigum yfir, 47-51, áður en leikhlutinn var hálfnaður. Það var Brynjar Þór sem fór fyrir sínum mönnum á þessum kafla, skoraði grimmt og kom Alawoya vel inn í leikinn en PJ hafði átt ævintýralega slakan fyrri hálfleik. Eftir þennan frábæra sprett hægðist á gestunum og Skallarnir fundu taktinn á ný og voru einu stigi yfir þegar þriðja leikhluta lauk. Staðan 59-58.

Danero Thomas lét aðeins til sín taka í upphafi fjórða leikhluta og lið Tindastóls náði fljótlega forystunni og leiddi með átta stigum, 61-69, þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar. Þá komu skyndilega sjö stig í röð frá Aundre Jackson og þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum kom hann Sköllunum yfir, 75-74, og Björgvin bætti tveimur stigum við skor Skallagríms með tveimur listrænum vítaskotum. Alawoya og Pétur réttu kúrsinn fyrir Stólana og breyttu stöðunni í 80-84 og eftir hollíhú frá Alawoya fékk Finnur, þjálfari Skallagríms, ofurnetta útrás sem dómarar leiksins höfðu ekki húmor fyrir og smelltu á hann tæknivillu. Þá var ljóst að sigur Tindastóls var í höfn.

Tölfræði á vef KKÍ >

Einn ágætur eftiráspekingur, sem fannst neikvæðnin á samfélagsmiðlunum keyra úr hófi fram í hálfleik, benti stuðningsmönnum Tindastóls á í leikslok að körfuboltaleikur væri 40 mínútur en ekki 20. Og þannig er nú það. Þetta var leikur tveggja gjörólíkra hálfleikja og þó menn hafi séð rautt yfir frammistöðu Stólanna í fyrri hálfleik þá verður að taka ofan fyrir leik þeirra í síðari hálfleik. Varla er hægt að hrósa nokkrum leikmanni fyrir leik sinn í fyrri hálfleik, nema þá kannski Axel sem kom inn með fínt framlag. Í síðari hálfleik var Brynjar mjög góður og aðrir stigu á vagninn. Brynjar skilaði 23 stigum, sex fráköstum og fjórum stoðum, Dino var með 16 stig og sex stoðsendingar, Alawoya setti 15 stig og hirti tíu fráköst og loks gerði Pétur 14 stig, tók átta fráköst og sendi 10 stoðara. Í liði heimamanna áttu Matej, Björgvin, Bjarni og Aundre ágætan leik en leikur heimamann endurspeglaðist dálítið í frammistöðu Björgvins; frábær í fyrri hálfleik en mislagðar hendur í þeim síðari. 

Staðan í Dominos-deildinni er hreint mögnuð á toppnum og nú þegar þetta er skrifað og Stólarnir eiga einn leik eftir, þá á liðið enn möguleika á að vinna Dominos-deildina. Þá þyrfti Stjarnan reyndar að tapa báðum sínum leikjum og Njarðvík síðasta leik sínum á meðan að Stólarnir þyrftu að leggja Keflavík. Svoleis gerist nottla ekki nema í Hollywood. En semsagt; þegar þetta er skrifað þá gætu Stólarnir endað deildina í fyrsta eða öðru eða þriðja eða fjórða eða fimmta sæti!  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir