Sveinbjörn Óli tók þátt í innanfélagsmóti ÍR - Bætti sig í 60m hlaupi og sigraði

Sveinbjörn Óli æfir með ÍR en keppir undir merkjum UMSS. Aðsend mynd.
Sveinbjörn Óli æfir með ÍR en keppir undir merkjum UMSS. Aðsend mynd.

Á dögunum var lítið innanfélagsmót haldið fyrir iðkendur ÍR og var það kærkomið á tímum Covid-19. Skagfirðingurinn Sveinbjörn Óli Svavarsson fékk þátttökurétt þar sem hann æfir með því félagi á meðan hann dvelur fyrir sunnan. Segist hann hafa fengið að fljóta með og keppa og þakkaði pent fyrir sig með því að sigra í 60 metra hlaupi og bætti hann auk þess sinn persónulega árangur.

Þrátt fyrir lítið mót segir Sveinbjörn Óli þetta hafa verið hörku riðill með ungum og efnilegum strákum sem eru að koma upp og bæta sig. „Þannig að maður fékk góða keppni,“ segir hann. „Ég er þakklátur Íþróttafélagi Reykjavíkur fyrir að leyfa mér að nýta aðstöðu og æfingatíma þeirra þótt ég keppi enn fyrir Ungmennasamband Skagafjarðar.“

Þú sigrar og bætir þinn persónulega árangur, ertu í hörku formi?
„Já, ég kom í mark á 7.08 sekúndum og átti fyrir 7.13 frá síðasta innanhússtímabili. Formið hefur aldrei verið betra. Sumarið skildi eftir sig gott hugarfar þar sem ég átti góð hlaup og hlutirnir voru að smella. Ég tek hugarfarið frá sumrinu með mér í innanhúss tímabilið og vonast eftir meiri bætingum.“

Hvernig hefur Covid haft áhrif á æfingar og keppni hjá þér?
„Þessir tímar hafa kennt mér að hugsa út fyrir ramman þegar kemur að æfingum. Ég tel mig hafa haft gott af því að prófa nýja hluti og þurft að nálgast æfingarnar á annan hátt en vanalega. Þessir tímar sýndu mér nýjar leiðir að markmiðum mínum og komu í veg fyrir að maður festist í sama farinu, sem er svo algengt meðal íþróttafólks.

Það ríkti ákveðin óvissa um vorið varðandi mótahald um sumarið. Ég hélt mínu striki og reyndi að halda æfingaálagi eðlilegu og stöðugu þrátt fyrir skertan aðgang að aðstöðu. Sem kom vel út um sumarið þar sem keppni fór af stað og ég bætti minn besta árangur í 100 metra hlaupi og komst í úrslit í bæði 100 og 200 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands sem haldið var á Akureyri.

Haustið hefur verið svipað og síðasta vor þar sem öllu var lokað og maður þurfti að æfa úti einn eða í minni hópum. Ég er þó öllu vanur varðandi veðráttu þar sem maður er alinn upp við að hlaupa úti allan ársins hring hér á Króknum. 
En nú er búið að opna fyrir æfingar og keppni aftur og lítil mót farin af stað til að undirbúa íþróttafólk fyrir stóru mótin sem fara fram í febrúar og mars.“

Hvernig lítur planið út hjá þér árið 2021?
„Planið fyrir innanhússtímabilið er að keppa á Reykjavík International Games sem eiga að fara fram 7. febrúar og síðan Meistaramóti Íslands sem er sett helgina 13-14. mars. Þetta eru tvö stærstu mótin sem ég stefni á en tek líklega þátt í minni mótum á milli eins og ég gerði um daginn til að halda mér í keppnisgírnum. Ég er á öðru ári í Íþrótta og heilsufræði og er að sinna því að mestu í gegnum netið eins og er.

Í sumar eru vonandi nokkrar landsliðsferðir. Smáþjóðameistaramót sem haldið er í San Marínó þetta ár og Evrópubikar sem fer fram í Stara Zagora í Búlgaríu. Ísland er í 2. deild í Evrópubikarnum eftir að hafa farið upp árið 2019.

Ég stefni á að vera á Króknum í sumar og vinna á íþróttavellinum. Gæti jafnvel sagt að ég búi á Sauðárkróksvelli á sumrin þar sem þegar vinnu lýkur á daginn taka við æfingar á kvöldin.

Áður birst í 4. tbl.  Feykis 2021

 

Uppfært kl. 13:24: Sveinbjörn Óli bætti tíma sinn enn frekar á Innanfélagsmóti FH í gær, 30. janúar, er hann hljóp 60 metrana á 7,04 sekúndum. Vel gert!  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir