Tap gegn Aftureldingu

Jacqueline skoraði mark Tindastóls. MYND:ÓAB
Jacqueline skoraði mark Tindastóls. MYND:ÓAB

Föstudagskvöldið 5. júlí mættust Afturelding og Tindastóll í Inkasso deild kvenna í blíðskapaveðri á Varmárvelli. Fyrir leikinn voru Tindastólsstúlkur í fimmta sæti með níu stig og með sigri gátu þær farið upp í þriðja sæti.  

Í byrjun leiks var mikið um baráttu og áttu bæði lið í vandræðum að tengja sendingar. Á níundu mínútu komst Afturelding yfir þegar Hafrún Rakel Halldórsdóttir skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru Aftureldingsstúlkur líklegri til þess að bæta við mörkum en Tindastóll náði ekki að skapa sér nein færi í fyrri hálfleik. Sem sagt 1-0 í hálfleik fyrir Aftureldingu.

Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Á 49. mínútu kom fyrsta færi Tindastóls, þá átti Jacqueline Altschuld skot á marki sem Birgitta Sól markvörður Aftureldingar varði. Mínútu síðar átti Kristrún María skot sem hafnaði í þverslánni. Afturelding náði síðan að bæta við öðru marki sínu á 67. mínútu þegar Samira Suleman skoraði framhjá Lauren eftir fyrirgjöf frá hægri kanti. Á 88. mínútu fékk Tindastóll aukaspyrnu á hættulegum stað rétt fyrir utan vítateig, Jacqueline tók spyrnuna og náði hún góðu skoti sem fór í þverslánna. Það var svo í uppbótartíma sem Tindastóll fékk víti þegar brotið var á Vigdísi Eddu og skoraði Jacqueline úr vítinu af miklu öryggi. Lokatölur því 2-1 fyrir Aftureldingu.

Það var greinilegt að Tindastóll saknaði markaskorarans Murielle Tiernan sem var stödd erlendis, en hún verður tilbúin í næsta leik sem verður spilaður hér á Sauðárkróksvelli gegn Grindavík annað kvöld klukkan 19:15.

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir