Tap gegn Íslandsmeisturum Blika

Mur á fullri ferð síðasta sumar. MYND: ÓAB
Mur á fullri ferð síðasta sumar. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls í fótboltanum mætti Íslandsmeisturum Breiðabliks í Lengjubikarnum í hádeginu í gær en spilað var í Kópavogi. Það kom svo sem ekki á óvart að meistaraliðið var töluvert sterkara liðið í leiknum en eftir erfiða byrjun í leiknum náðu Stólastúlkur áttum og vörðust ágætlega í síðari hálfleik. Lokatölur voru 4-1 fyrir Breiðablik.

Mörk frá Áslaugu Mundu, Öglu Maríu og Hildi Þóru á fyrsta hálftímanum gerðu í raun út um leikinn en staðan var 3-0 í hálfleik. Agla María bætti við fjórða marki Blika á 68. mínútu en í uppbótartíma minnkaði Mur bilið eftir að Kristjana Sigurz hafði fengið að líta rauða spjaldið stuttu áður.

Að mati Guðna Þórs Einarssonar, annars þjálfara Tindastóls, var lið Tindastóls pínu stressað til að byrja með og gaf meisturunum full mikinn tíma á boltanum. „Við drógumst full neðarlega á völlinn og áttum í erfiðleikum með að halda boltanum innan liðsins, sérstaklega í fyrri hálfleik Mér fannst annar bragur á síðari hálfleiknum og við mættum af meiri krafti og um leið vörðumst mun betur. Stelpurnar fengu meira sjálfstraust og réðu betur við hraðann í leiknum. Ég er bara nokkuð sáttur við leikinn. Við erum að fara spila leiki á töluvert hærra tempói og mér finnst liðið vera að þróast í rétta átt að því. Við stóðum vel í Íslandsmeisturum Blika í seinni hálfleik og það tökum við með okkur í næsta leik gegn Fylki.

Aðspurður um ástandið á hópnum sagði Guðni að Laufey hefði verið fjarverandi vegna veikinda, Aldís að glíma við smávægileg meiðsli og Jenný að ná sér eftir höfuðhögg. „Við erum að vinna í að styrkja hópinn okkar fyrir sumarið. Krista er að koma aftur eftir meiðsli og ungu stelpurnar, Magnea, Marsilia og Magga hafa átt flottar innkomur,“ sagði Guðni.

Leikurinn var sýndur í beinni á Stöð2Sport. Þegar blm. Feykis settist niður til að horfa á leikinn í endursýningu í gærkvöldi þá kom í ljós að það hafði klippst aftan af leiknum og mark Tindastóls því ekki sjáanlegt. Bömmer.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir