Tap í síðasta leik vetrarins hjá Stólastúlkum

Það fór vel á með leikmönnum Tindastóls og Þórs að leik loknum. MYND: PÁLL JÓHANNESSON
Það fór vel á með leikmönnum Tindastóls og Þórs að leik loknum. MYND: PÁLL JÓHANNESSON

Lið Tindastóls sótti Þórs-stúlkur heim í Höllina á Akureyri í gær í síðasta leik liðsins í 1. deild kvenna þennan veturinn. Stólastúlkur höfðu tapað fyrri tveimur leikjum liðanna í vetur en báðir voru þeir jafnir og spennandi en í gær náði lið Þórs upp mikilli baráttu og tóku völdin snemma leiks. Á enda hömpuðu þær 28 stiga sigri, lokatölur 86-58, og náðu því þrennunni gegn nýliðum Tindastóls í vetur.

Tindastóll hafði unnið útileik gegn Njarðvík fyrir viku og vildu enda tímabilið sterkt og þær fóru vel af stað, komust í 2-7 með körfum frá Tess og Marín Lind. Næstu þrettán stig voru hins vegar Þórsara og þær tóku völdin á vellinum. Marín minnkaði muninn skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta með þristi, 19-14, þannig að  Stólastúlkur voru ekki alveg á því að gefast upp. Hart var barist í upphafi annars leikhluta og aftur setti Marín þrist og staðan 23-17. Næstu fjórar mínútur gerðu liðin ekki stig en síðustu mínútur annars leikhluta voru Þórsarar sterkari og staðan í hálfleik 38-24.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en liði Tindastóls gekk ekkert að saxa á forskot heimastúlkna. Munurinn var yfirleitt 15-20 stig og lið Þórs komst mest 21 stigi yfir þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta, eftir körfu frá Sylvíu Rún sem átti enn einn stórleikinn gegn Stólunum. Tess, Rakel og Marín svöruðu fyrir lið Tindastóls og staðan 57-43 fyrir lokaátökin. Í fjórða leikhlutanum keyrðu Þórsstúlkur yfir lið Tindastóls, unnu leikhlutann 29-15, og leikinn því 86-58.

Enn voru það fráköstin sem léku Stólastúlkur grátt en lið Þórs vann þann slag 67/39.  Þá voru þær Sylvía Rún (25 stig, 13 fráköst, 9 stoðsendingar) og Rut Herner (29 stig, 21 frákast, 46 í framlag) í banastuði fyrir heimastúlkur. Tess Williams var atkvæðamest í liði Tindastóls með 24 stig og níu fráköst. Eva Rún var sömuleiðis með níu fráköst og ansi magnað að þær tvær hafi frákastað mest í liði Tindastóls því ekki er hæðin að þvælast fyrir þeim. Marín Lind var drjúg að venju með 18 stig, Rakel Rós systir hennar með sex stig en aðrar minna.

Það er ljóst að lið Tindastóls endar tímabilið í sjötta og næstneðsta sæti í 1. deild kvenna með 12 stig, sex sigra í átján leikjum. Liðinu var spáð sæti um miðja deild en eftir ágæta spretti í vetur þá var það endalaust akkilesarhæll liðsins að tapa frákastabaráttunni, yfirleitt stórt, og því við ramman reip að draga í leikjum vetrarins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir