Tap Stólastúlkna í Grafarvoginum

Telma Ösp fyriliði TIndastóls í baráttunni gegn ÍR í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA
Telma Ösp fyriliði TIndastóls í baráttunni gegn ÍR í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Fjölnis b og Tindastóls mættust í 16. umferð 1. deildar kvenna í körfubolta í Grafarvoginum í gær. Stólastúlkur þurftu að sigra til að færa sig í huggulegra sæti fyrir úrslitakeppnina framundan en það fór svo að heimastúlkur reyndust sterkari og lið Tindastóls sem var í fjórða sæti fyrir skömmu endaði í áttunda sæti en með jöfn mörg stig og liðin þrjú fyrir ofan. Lokatölur voru 88-70.

Fyrstu fimm mínútur leiksins var jafnræði með liðunum en þá stungu heimastúlkur af, breyttu stöðunni úr 13-10 í 32-16 fyrir lok fyrsta leikhluta. Lið Tindastóls varðist betur í öðrum leikhluta en náðu ekki að klóra í bakkann og tuttugu stigum munaði í hálfleik. Staðan 50-30.

Eva Wium og Inga Sólveig gerðu fyrstu sex stigin í síðari hálfleik en þá vöknuðu heimastúlkur að nýju og bættu í. Munurinn varð mestur 29 stig, 66-37, en Stólastúlkur löguðu stöðuna fyrir lok þriðja leikhluta. Staðan 70-48 þegar fjórði leikhluti hófst og það var eini leikhlutinn þar sem gestirnir höfðu betur en það dugði skammt að þessu sinni.

Eva Wium og Marín Lind voru stigahæstar í liði Tindastóls en Eva gerði 30 stig og tók átta fráköst en Marín var með 25 stig og sex fráköst. Marín Lind tók 13 3ja stiga skot en hefur hitt betur – setti bara eitt niður – en heimastúlkur fengu 14 sinnum villu fyrir að brjóta á Marín sem tók 17 vítaskot í leiknum. Lið Fjölnis b tók 62 fráköst í leiknum en lið Tindastóls 36.

Nú mæta stelpurnar semsagt ÍR-ingum í úrslitakeppninni og er fyrsti leikurinn fimmtudaginn 13. maí í Breiðholtinu. Lið ÍR kemur svo á Krókinn 16. maí ef kófið leyfir. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram. Breiðhyltiingarnir hafa verið erfiðir Stólastúlkum upp á síðkastið, enduðu í öðru sæti deildarinnar. Stólastúlkur þurfa því klárlega að hitta á toppleiki til að stríða mótherjum sínum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir