„Það er svo gott í hjartað að vinna leik“

Lið Tindastóls að leik loknum. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON
Lið Tindastóls að leik loknum. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON

Þar kom loks að því að Stólastúlkur brutu ísinn og lögðu eitthvað annað lið en Breiðablik b í parket þennan veturinn. Og það var ekki eins og það væru einhverjir aukvisar sem heimsóttu Síkið í gær því um var að ræða eitt af toppliðum deildarinnar, lið Snæfells sem hefði með sigri verið í námunda við lið Þórs Akureyri og Stjörnunnar sem eru efst í 1. deild kvenna. Góður annar leikhluti kom liði Tindastóls í bílstjórasætið og lið Snæfells náði ekki vopnum sínum enda bandarískur leikmaður liðsins eitthvað illa fyrir kölluð í gær og fékk sína fimmtu villu í upphafi þriðja leikhluta. Lokatölur 76-69.

Lið Snæfells hafði unnið fyrri tvo leiki liðanna í deildinni í vetur af miklu öryggi og gestirnir byrjuðu leikinn betur, komust í 0-5 og staðan var 10-19 þegar rúmar sex mínútur voru liðnar. Tvennur frá Emese, Jaylu og Ingu Sólveigu minnkuðu muninn í 22-23 og stigi munaði þegar leikhlutanum lauk, 24-25. Cheah Whitsitt fékk sína þriðju villu snemma í öðrum leikhluta og var kippt út af til kælingar þegar rúmar fimm mínútur voru í hálfleik en staðan var enn jöfn, 36-36, þegar þrjár mínútur lifðu. Þá gerðu heimastúlkur níu síðustu stig fyrri hálfleiks og staðan þá orðin 45-36.

Stólastúlkur náðu að byrja síðari hálfleik ágætalega, fyrsta skoraði Jayla og síðan bætti Rebekka Hólm við þristi og munurinn skyndilega 14 stig. Skömmu síðar fékk Cheah tvær snöggar villur, fjórðu og fimmtu, og kom ekki meira við sögu. Gestirnir löguðu þó stöðuna með 0-8 kafla upp úr miðjum leikhlutanum, staðan 53-48, en Inga Sólveig, Jayla og Emese svöruðu að bragði og staðan 59-48 fyrir lokafjórðunginn. Stólastúlkur bættu í í byrjun fjórða leikhluta og náðu mest 15 stiga forystu þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka. Aftur náðu gestirnir 0-8 kafla og þegar 40 sekúndur voru eftir minnkaði Rebekka Kalla Jóns muninn í sex stig, 72-66, en Eva Rún og Inga Sólveig svöruðu, áður en Rebekka endurtók leikinn. Nær komst lið Snæfells ekki og Stólastúlkur fögnuðu sætum sigri.

Jayla Johnson var með 34 stig í gærkvöldi og Inga Sólveig kom með 18 stig af bekknum. Þá var Emese Vida með 11 stig, 17 fráköst og átta stoðsendingar. Liðin tóku álíka mörg fráköst en 3ja stiga nýtingin var ekki upp á marga fiska hjá liðunum, 3/19 hjá Stólastúlkum og 8/32 hjá liði Snæfells. Það kom þó ekki að sök hjá Stólastúlkum að þessu sinni.

„Stefnum á að klára tímabilið með stæl

„Leikurinn í gær var geggjaður í alla staði,“ sagði Eva Rún Dagsdóttir, fyrirliði Tindastóls, þegar Feykir sóttist eftir viðbrögðum hennar í kjölfar sigurleiksins. „Við mættum vel undirbúnar í leikinn, fullar af orku og baráttu. Við náðum að loka vel á stærstu ógnir Snæfells og það var klárlega vörnin sem vann þennan leik. Kaninn í Snæfelli var í villuvandræðum stóran hluta leiksins sem var okkur í hag. Að mínu mati var þetta besti leikurinn hjá liðinu þar sem allt liðið mætti til leiks með einbeitingu, orku og baráttu. Við stóðum vel saman allan leikinn og það var mikil leikgleði. Það er svo gott í hjartað að vinna leik, sérstaklega eftir erfiðleikana sem við höfum verið að glíma við. Við erum spenntar fyrir að taka næstu leiki líka. En við stefnum á að klára tímabilið með stæl og ég mæli með að fylgjast með og styðja okkur í því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir