„Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýn!“

Bergljót Ásta með Stólastúlkum. MYND: ÓAB
Bergljót Ásta með Stólastúlkum. MYND: ÓAB

Á síðasta ári urðu tveir leikmanna kvennaliðs Tindastóls fyrir því að elta leiðinlegasta tískufyrirbærið í fótboltanum; krossbandsslit. Fyrst var það Kristrún María Magnúsdóttir sem lenti í þessum óskunda á slitinni gervimottunni í Boganum á Akureyri og síðan lenti Bergljót Ásta Pétursdóttir í þessum hremmingum í Garðabænum um mitt síðasta sumar. Krossbandsslit eru með ólíkindum algeng í kvennaboltanum og óskaplega erfið meiðsli með langri endurhæfingu. Það þarf bein í nefinu til að ganga í gegnum þetta ferli.

Í gær var sagt frá því að Bergljót væri búin að endurnýja samning sinn við lið Tindastóls þannig að Feykir hafði samband við Donna þjálfara Stólastúlkna og spurði aðeins út í stöðuna á stúlkunum.

Donni segist vonast til þess að Kristrún geti aðeins farið að sparka í bolta á næstunni. „Hún er búin að vera alveg svakalega dugleg i sinni endurhæfingu og ef allt gengur eftir þá sjáum við hana vonandi inni á vellinum í sumar,“ segir hann en meiðsli Kristrúnar voru slæm, slit á fremra krossbandi og hliðarliðbandi innanvert á hnénu, einnig skaði á aftara krossbandi eins og lesa mátti í viðtali við hana í Feyki fyrir tæpu ári.

„Bergljótu gengur lika mjög vel i sinni endurhæfingu og við vonumst svo sannarlega lika eftir henni í sumar,“ segir Donni og það var því ekki úr vegi að heyra aðeins hljóðið í henni.

Hvað kom fyrir í sumar Bergljót? „Ég sleit fremra krossband á hægri fæti í leik á móti Stjörnunni síðasta sumar. En það er víst orðin einhver tíska í kvenna fótbolta.“

Hvernig gekk aðgerðin? „Aðgerðin gekk mjög vel. Ég er byrjuð að skokka aftur ásamt því að gera styrktaræfingar og svo fer að styttast í að ég fái að sparka í bolta.“

Hvernig ferli tekur við eftir aðgerð og er mikil vinna í að ná sér aftur í Bestu deildar form eftir krossbandsslit? „Fyrstu vikurnar eftir aðgerð ertu bara að reyna stiga aftur í fótinn og æfa þig að rétta úr honum. Eftir að það er komið þá byrjarðu að gera léttar styrktaræfingar til að vinna upp styrkinn sem þú ert búin að missa. Svo eru það bara endalausar æfingar og tímar hjá sjúkraþjálfara. Þannig að það má segja að þetta sé mikil vinna og krefjandi verkefni sem reynir heldur betur á þolinmæðina en svo er þetta auðvitað misjafnt hjá hverjum og einum sem lendir í þessu,“ segir Bergljót Ásta sem er bjartsýn á að ná að spila í sumar. „Það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýn!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir