Það vantaði miklu meira Malt í Stólana

Pétur tekur flugið en kappinn fékk slæman skell við lendinguna. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur tekur flugið en kappinn fékk slæman skell við lendinguna. MYND: HJALTI ÁRNA

Bikarævintýri Tindastóls er á enda í bili eftir að Stjarnan kom, sá og sigraði ríkjandi Maltbikarmeistara af miklu öryggi í Síkinu í gærkvöldi. Stjarnan náði frumkvæðinu strax í byrjun leiks og þrátt fyrir ágætan sprett í öðrum leikhluta náðu Stólarnir aldrei að jafna leikinn. Vægt til orða tekið þá komu Tindastólsmenn marflatir til leiks í þriðja leikhluta og gestirnir gengu á lagið og stungu Stólana af. Lokatölur leiksins 68-81.

Fyrirfram var búist við hörkuleik en lið Tindastóls var að spila frábærlega fyrir áramót en hefur verið í basli nú í upphafi árs með lykilmenn í meiðslum og öðrum leikmönnum hefur reynst erfitt að finna taktinn. Stjarnan hafði aftur á móti unnið fimm leiki í röð fyrir þennan leik og höfðu nýlega bætt við sig enn einum leikmanninum og breiddin og gæði leikmanna mikil. Heimavöllurinn hefur hins vegar reynst Stólunum nokkurra stiga virði í gegnum tíðina og endurkoma Uralds King í lið Stólanna gaf vonir um að liðið næði vopnum sínum.

Það var ekki svo enda kom á daginn að King var langt frá því búinn að ná sér góðum af meiðslunum, hann gat lítið beitt sér í teignum og stakk við. Stjarnan komst í 0-7 í byrjun leiks en þristar frá Dino og Danero löguðu stöðuna. Ægir Þór fór mikinn í liði gestanna og staðan var 7-14 um miðjan fyrsta leikhluta en Pétur setti niður þrist og íleggja frá Urald minnkaði muninn í 12-16. Hlynur Bærings og Colin Pryor settu þá niður sinn hvorn þristinn fyrir Stjörnuna og munurinn tíu stig. Brilli bætti við þristi og Stólarnir því lítið gert annað en að setja niður þrista í fyrsta leikhluta. Staðan 17-26 þegar annar leikhluti hófst og Brilli bætti við öðrum þristi í upphafi hans og Pétur sömuleiðis og staðan 23-26. Stjarnan náði aftur undirtökunum og munurinn yfirleitt 6-10 stig næstu mínúturnar en upp úr miðjum leikhluta sóttu Stólarnir að Stjörnunni og minnkuðu muninn tvívegis í tvö stig en náðu aldrei að jafna eða komast yfir. Þetta var besti kafli Tindastóls í leiknum og gaf fyrirheit um spennandi síðari hálfleik. Staðan 42-46 í hálfleik.

Bæði lið spiluðu góðan varnarleik í byrjun þriðja leikhluta en leikmenn Tindastóls virtust gjörsamlega heillum horfnir í sókninni. Hvað eftir annað voru menn að missa boltann kæruleysislega, boltinn gekk illa milli manna og það var langt frá því að strákarnir spiluðu sem lið. Með Urald King á annarri löppinni í teignum gátu Stjörnumenn einbeitt sér að því að koma í veg fyrir að skyttur Stólanna fengu opin færi og ef það gerðist þá reyndust skotin slök. Það tók Tindastól sex og hálfa mínútu að finna leið að körfu Stjörnunnar og þá var munurinn orðinn nítján stig, 42-61, og hausinn farinn á meðan lið Stjörnunnar geislaði af sjálfstrausti. Garðbæingar voru hreinlega með of sterkt lið og Stólarnir of veikburða til að eiga leið til baka að þessu sinni. 

Staðan var 50-69 þegar fjórði leikhluti hófst og heimamenn reyndu hvað þeir gátu að finna taktinn. Þeir minnkuðu muninn í 15 stig en gestirnir voru með mörg beitt vopn í sínu búri og þeim reyndist ekki erfitt að halda Stólunum í þægilegri fjarlægð. Það fór svo að lokatölur urðu 68-81 og Stólarnir því úr leik í Geysisbikarnum.

Það er óhætt að fullyrða að frammistaða Tindastóls hafi valdið vonbrigðum. Of margir lykilmanna voru langt frá sínu besta, menn voru seinir á löppunum, seldu sig hvað eftir annað þannig að Stjörnumenn fengu opin skot, misstu boltann og urðu, því miður, hreinlega undir í baráttunni og því eigum við ekki að venjast í Síkinu. 

Tölfræði af vef KKÍ >

Pétur var bestur í liði heimamanna, hann gerði 12 stig, var frákastahæstur með átta stykki og átti átta stoðsendingar að auki. Pétur fékk slæma byltu undir lok leiks en hristir hana vonandi af sér fyrir stórleikinn gegn Njarðvík á föstudaginn. Urald King gerði hvað hann gat og var stigahæstur með 16 stig en tók aðeins sex fráköst. Hann gat ekki beitt sér að fullu og tók því of mikið af skotum djúpt  í teignum og það er ekki hans sterka hlið. Aðrir leikmenn náðu sér ekki á strik.

Ægir Þór Steinarsson og Brandon Rozzell voru báðir með 21 stig í liði Stjörnunnar og Collin Pryor og Antti Kanervo skiluðu báðir 11 stigum. Hlynur Bærings var drjúgur að vanda með 11 fráköst og átti sinn þátt í því að loka leið Urald King að körfunni. 

Í liði Stjörnunnar eru auk íslensku leikmannanna einn Kani, tveir Bosmenn og einn íslenskur Kani að auki. Að leik loknum var Pétur Birgis spurður hvort Tindastólsmenn ætluðu að bæta við sig erlendum leikmanni en kappinn sagðist ekkert vita um slíkt. Meiðsli Urald King hljóta að valda Tindastólsmönnum miklum áhyggjum og því eðlilegt að menn velti fyrir sér möguleikanum á að styrkja liðið fyrir komandi átök. 

Hvað sem því líður er ljóst að það verður við ramman reip að draga þegar Stólarnir bregða sér suður í Njarðvík á föstudag og spila þar við topplið Dominos-deildarinnar. Nú þurfa stuðningsmenn að gera sitt besta til að koma strákunum aftur í gang. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir