Tindastóll með töff sigur á toppliðinu

Max og Jónas Aron í strangri gæslu Vængjamanna. MYND: ÓAB
Max og Jónas Aron í strangri gæslu Vængjamanna. MYND: ÓAB

Karlalið Tindastóls var í eldlínunni í 4. deildinni í dag þegar strákarnir tóku á móti toppliði deildarinnar, Vængjum Júpíters, á Sauðárkróksvelli. Fyrir leik voru Stólarnir hins vegar í fjórða sæti deildarinnar og þurftu nauðsynlega að næla í sigur til að koma sér betur fyrir í toppbaráttu deildarinnar. Það hafðist og var sigurinn nokkuð öruggur. Lokatölur að loknum skemmtilegum leik voru 3-1.

Það voru kjöraðstæður á Króknum í dag, logn og hlýtt, og eftir góðar upphafsmínútur heimamanna var það Jón Gísli Stefánsson sem braut ísinn, komst í gegnum vörn gestanna og skoraði gott mark á 13. mínútu. Eftir þetta voru gestirnir meira með boltann en vörn Stólanna hélt vel, Vængirnir fengu fáa sénsa, en þeir fengu þó ansi ódýra vítaspyrnu eftir um hálftíma leik. Alejandro í markin varði ágæta spyrnu með tilþrifum, kastaði sér til hægri og blakaði boltanum aftur fyrir endamörk. Það var helst að stuðningsmenn Stólanna hefðu áhyggjur þegar boltanum var spilað í öftustu vörn en menn virkuðu stundum heldur kærulausir. Staðan 1-0 í hálfleik.

Gestirnir úr Grafarvoginum voru áfram meira með boltann í byrjun síðari hálfleiks en fengu mark í andlitið á 55. mínútu. Þá náðu Stólarnir góðri skyndisókn, unnu boltann og komu honum fram á David Toro Jimenez. Hann lék boltanum í átt að vítateig Vængjanna, lét síðan vaða á markið utan teigs og skoraði. Staðan 2-0 og markinu vel fagnað. Heimamenn voru nokkuð roggnir eftir þetta og supu seiðið af því, gestirnir unnu boltann þegar Stólarnir höfðu ýtt of mörgum fram, náðu laglegri skyndisókn og Jónas Breki Svavarsson, á auðum sjó, minnkaði muninn þegar hann setti boltann framhjá Alejandro í markinu.

Ef einhverjir óttuðust að toppliðið tæki nú öll völd þá fór það ekki svo því Stólarnir voru snöggir að kvitta fyrir sig. Á 74. mínútu var boltanum spilað upp hægri kant þar sem leikmaður Tindastóls komst í góða stöðu við vítateiginn, sendi fyrir markið og Arnar Ólafs mætti inn á markteig og skoraði af öryggi með sinni fyrstu snertingu en hann hafði komið inn á mínútu áður. Gestirnir reyndu að sækja að marki Tindastóls en gekk illa að skapa færi gegn sterkri vörn Tindastóls og það voru Stólarnir sem fengu hættulegri færi. Þannig fékk Benedikt Gröndal tvö góð færi sem hann hefði sett í markið á öðrum degi en Víðir Gunnarsson í marki VJ lokaði vel á hann. Lokatölur 3-1.

Frábær sigur því staðreynd og Stólarnir klifruðu upp í þriðja sæti deildarinnar, í það minnsta tímabundið þar sem lið KFK á leik inni og eru einu stigi á eftir Stólunum. Lið Tindastóls gerði vel í dag, reyndu að halda boltanum innan liðsins í fyrri hálfleik og náðu oft skörpum sóknum. Framan af síðari hálfleik voru strákarnir þó helst til glaðir að losa fram þar sem andstæðingarnir hófu hverja sóknina af annari. Stólarnir eru með eina sterkustu vörn deildarinnar og fengu fá færi á sig og þar fyrir aftan greip Alejandro vel inn í þegar á þurfti að halda. Oft brá fyrir skemmtilegum töktum hjá leikmönnum Stólanna og þar fór David Jimenez fremstur í flokki í dag – sá er ansi laginn með boltann.

Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Skallagríms í Borgarnesi næstkomandi föstudag. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir