Tomsick tók yfir í sigurleik Tindastóls í Ljónagryfjunni

Tomsick var mikilvægur í gærkvöldi. Hér er hann í leik gegn KR á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA
Tomsick var mikilvægur í gærkvöldi. Hér er hann í leik gegn KR á dögunum. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var enginn ballett dansaður í Ljónagryfjunni í Njarðvík í gærkvöld þegar Njarðvík og Tindastóll leiddu hálf lemstruð og taugastrekkt lið sín til leiks. Það var mikið undir hjá liðunum en þau hafa ekki verið að safna stigum að undanförnu og falldraugurinn farinn að anda ofan í hálsmál beggja. Leikurinn var sveiflukenndur en að þessu sinni var það lið Tindastóls sem fór heim með stigin eftir trylltan og villtan dans Nicks Tomsick í fjórða leikhluta. Lokatölur 74-77.

Tindastólsmenn virkuðu ekki líklegir til stórafreka fyrstu mínúturnar en þá hvorki gekk né rak. Sóknarleikurinn stirðbusalegur og vörnin enn í Hvalfjarðargöngunum. Baldur tók leikhlé eftir tæplega sex mínútna leik í stöðunni 18-7 og henti Xela og Viðari í pottinn á kostnað Udras og Tomsick. Skyndilega gátu heimamenn ekki fundið körfuna og var það ekki síst fyrir frábæran leik Viðars sem var eins og óð fluga um allan völl. Staðan var 20-10 að loknum fyrsta leikhluta en þessi fítonskraftur sem fylgdi Viðari virtist bráðsmitandi fyrir félaga hans, sem segir manni að líklega sé ekki búið að bólusetja Tindastólsliðið við körfuboltaveirunni – og það boðar vonandi gott.

Stólarnir snéru leiknum sér í hag í öðrum leikhluta sem vannst 30-14 en strákarnir skutust fram úr heimamönnum þegar rúmar þrjár mínútur voru til leikhlés. Þá setti Jaka niður fallegan þrist eftr stoðsendingu frá Pétri. Njarðvíkingar komust aldrei yfir eftir þetta og voru í raun alveg ótrúlega ólíkir sjálfum sér. Staðan í hálfleik var 34-40. Þriðji leikhlutinn var jafn og spennandi en fegurðin bar leikinn síður en svo ofurliði á þessum kafla, sóknarleikur beggja liða stirður og mikið um mistök. Stólarnir enduðu leikhlutann með íleggju frá Viðari og Udras setti niður eitt víti og staðan 48-55 fyrir lokaátökin.

Fjórði leikhluti var að mestu í eigu Nick Tomsick sem sýndi bæði sparihliðina og líka þessa sem enginn vill sjá. Hann gerði ellefu stig í röð á fyrstu þremur mínútunum og færði sig alltaf utar og utar á völlinn til að skjóta. Þetta er fagurt þegar það fer niður. Tindastóll yfir, 55-66, og Pétur ákvað að gera eina sparikörfu til að halda upp á þetta. Karfa frá Flenard og þristur frá Tomsick komu liði Tindastóls í væna 15 stiga forystu þegar fimm mínútur sléttar lifðu, staðan 58-73, og sigurinn væntanlega í höfn?

Uuuu, ekki kannski alveg, því í fjórar mínútur og fimmtíu sekúndur gerði lið Tindastóls ekki stig og heimamenn mjökuðust nær. Á tveggja mínútna kafla missti Tomsick boltann fjórum sinnum klaufalega og þegar hálf mínúta var til leiksloka var staðan orðin 71-73 og allt opið upp á gátt. Antonio Hester fékk möguleika til að jafna leikinn þegar 15 sekúndur voru eftir en skot hans geigaði og hann braut svo á Tomsick til að stöðva leiktímann þegar níu sekúndur voru eftir. Hann setti bæði skotin í, staðan 71-75, en fjórum sekúndum síðar hafði Logi Gunn minnkað muninn í eitt stig með ofurþristi. Hann braut síðan á Tomsick sem aftur skilaði tveimur stigum á töfluna þegar þrjár sekúndur voru eftir og þar sem Njarðvíkingar voru búnir með leikhléin sín urðu þeir að koma boltanum í leik í hvelli og skot Loga frá miðju – til að jafna leikinn – geigaði. Púff!

Glover farinn og gleðin komin?

Sætur þriggja stiga sigur Tindastóls reyndist líka stærri en sigur Njarðvíkinga í Síkinu þannig að Tindastóll stendur betur í innbyrðisviðureignum ef það reynist skipta máli í lok móts. Með sigrinum skreið lið Tindastóls upp í áttunda sæti með 12 stig en Njarðvík er nú í tíunda sæti með tíu stig líkt og Þór Akureyri sem sigraði Stjörnuna í Garðabæ í gær. Það stefnir í hrikalega baráttu í neðri hluta Dominos-deildarinnar.

Tomsick kláraði leikinn með 28 stig og Flenard var með 17 stig en aðrir leikmenn komust ekki yfir tíu stigin. Bæði Brodnik og Udras voru mislagðar hendur í sókninni en í gær var baráttan til fyrirmyndar og Baldur þjálfari ánægður með karakterinn í liðinu og fannst honum sem sýnir menn hefðu loksins fundið gleðina í leiknum á ný. Sem fyrr segir var innkoma Viðars mögnuð en hann tók sjö fráköst og gerði átta stig og var alveg hundleiðinlegur við heimaliðið. Þegar tölfræðin er skoðuð þá kemur í ljós að best gekk hjá liði Tindastóls þegar Axel (+17), Helgi Rafn (+15) og Viðar (+11) voru inni á vellinum og sýnir að þótt þessir leikmenn séu ekki með mýmörg skoruð stig þá mæta þeir til leiks með Tindastólshjartað í fínum takti.

Næst mæta strákarnir liði Vals á Hlíðarenda nk. fimmtudag en síðan taka við þrír heimaleikir gegn Hetti, Þór Akureyri og Þór Þorlákshöfn. Allt erfiðir leikir en þannig er deildin bara í dag – enginn leikur unnin fyrirfram. Áfram Tindastóll!

Tölfræði á vef KKÍ >

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir