Tvö stig til Tindastóls

Perkovic reynir að verja skot frá Suarez. Pétur fylgist með. MYND: HJALTI ÁRNA
Perkovic reynir að verja skot frá Suarez. Pétur fylgist með. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Þór frá Akureyri mættust í Síkinu í gærkvöldi í undarlega flötum og leiðinlegum leik. Stemningsleysið inni á vellinum smitaðist upp í stúku og það var líkast því að það væri eitthvað formsatriði að ná í þessi tvö stig af Akureyringum. Það var varla fyrr en í fjórða leikhluta sem Stólarnir náðu að hnika sér örlítið frá gestunum. Lokatölur 89-77 og aðalmálið að ná í stigin tvö þó leikurinn fari ekki í sögubækurnar.

Fyrir leik var fyrrum fyrirliða Tindastóls, Lárusar Dags Pálssonar, sem lést 19. október sl., minnst með nokkrum orðum og mínútuþögn.

Gestirnir frá Akureyri fóru ágætlega af stað, settu skotin sín niður, og höfðu yfirhöndina framan af leik með þá Jamal Palmer og Hansel Suarez í góðum gír. Pétur Birgis var framan af eini maðurinn sem eitthvað kvað að í liði Tindastóls en síðan datt Simmons í gang. Trukkarnir okkar stóru voru aftur á móti ískaldir bæði í sókn og vörn, voru að skjóta illa, og það var ekki fyrr en Viðar, Helgi og Axel komu inn sem neisti kviknaði í vörninni. Þórsarar voru 7-12 yfir snemma leiks en Jaka, Pétur og Viðar gerðu síðustu körfur fyrsta leikhluta og Stólarnir leiddu 23-21. Andleysið hélt áfram í öðrum leikhluta en í honum gerðu Stólarnir aðeins 13 stig og Þórsarar sömuleiðis. Sennilega einhverjar leiðinlegustu tíu mínútur af körfubolta sem sést hafa í Síkinu. Staðan í hálfleik 36-34.

Örlítið meiri kraftur var í liði Tindastóls í síðari hálfleik og munaði mestu um að það kviknaði á Sinisa Bilic. Þórsarar voru hins vegar ólseigir og þó Stólarnir væru jafnan skrefinu á undan þá var oft jafnt í þriðja leikhluta. Vörn Tindastóls var alltof oft úti á túni og Þórsarar að skora einfaldar körfur eftir skyndisóknir og þetta fór í fínustu taugar stuðningsmanna Stólanna sem eru ekkert vanir svona töktum. Frústreringin á pöllunum bitnaði að sjálfsögðu á dómurunum, eins og lög og reglur gera ráð fyrir, en dómaratríóið var svo sem ekkert að baða sig í gloríunni og hafa örugglega flautað betri leiki. Þristar frá Bilic og Brodnik sáu til þess að Tindastóll var með fimm stiga forystu, 65-60, fyrir lokafjórðunginn.

Tindastóll hélt þetta 5-7 stiga forystu framan af fjórða en þristur frá Axel Kára kom muninum í átta stig. Slök vítahittni gestanna gerði þeim erfitt fyrir og smá saman hertu Stólarnir tök sín á leiknum. Tvö víti frá Perkovic komu Stólunum yfir tíu stiga múrinn og í kjölfarið fóru gestirnir að verða örvæntingafullir og hófu að brjóta á heimamönnum sem þýddi að dómararnir gáfu villur vinstri hægri og stemningin í Síkinu léttist nokkuð. Bilic var áberandi á lokakaflanum og endaði leikinn stigahæstur Tindastólsmanna. 

Vildu komast heim að skúra

Það má segja að þrennt hafi glatt í gær; stigin tvö til Tindastóls, fjarkinn hjá Þór sem var leikandi léttur og tap KR gegn ÍR. Andleysi ríkti á gólfinu og stemningin í stúkunni var á sama plani. Það var kannski lýsandi fyrir leikinn í gærkvöldi að fílefldir karlmenn á svölunum áttu þá ósk heitasta að leikurinn kláraðist sem fyrst svo þeir kæmust heim að skúra.

Bilic var slakur í fyrri hálfleik en hann var allt í öllu hjá Stólunum í síðari hálfleik og endaði leikinn með 23 stig. Jaka Brodnik óx líka eftir því sem á leikinn leið og skilaði 19 stigum og átta fráköstum. Simmons náði sér ekki almennilega á strik en endaði með 15 stig og sex stoðsendingar en Pétur var með 13 stig. Í liði Þórs var mjög gaman að fylgjast með Hansel Suarez þjótandi um gólfið, og nokkrum sinnum mátti heyra að stuðningsmenn Tindastóls voru yfir sig hrifnir – þó þeir leggi ekki í vana sinn að hæla Þórsurum í Síkinu! Suarez skilaði 18 stigum og átti átta stoðsendingar og margar hverjar gullfallegar. Pablo Montenegro var seigur með 18 stig, Palmer gerði 17 og Virbalas 15.

Næsti leikur Tindastóls verður í Vesturbænum þar sem þeir mæta sárum KR-ingum. Það er nokkuð ljóst að lið Tindastóls þarf að mæta betur stemmt til leiks þá og það efast enginn um það. Áfram Tindastóll! 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir