UMSS fyrirmyndarhérað ÍSÍ og Viggó með gullmerki

Klara Helgadóttir formaður UMSS 
með viðurkenninguna góðu, Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Mynd: UMSS.
Klara Helgadóttir formaður UMSS með viðurkenninguna góðu, Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Mynd: UMSS.

Á 99. ársþingi UMSS sem haldið var í Húsi frítímans síðastliðinn þriðjudag, 19. mars, veitti Ingi Þór Ágústsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, og Viðar Sigurjónsson, skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri, Ungmennasambandi Skagafjarðar viðurkenninguna Fyrirmyndarhérað ÍSÍ, en það er annað héraðssambandið sem hlýtur þessa viðurkenningu á landinu.

Fyrirmyndarhérað ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að íþróttastarfi og fæst að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem ÍSÍ setur. Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE) var fyrst allra íþróttahéraða sem fékk afhenta viðurkenninguna, í nóvember 2017.

Ingi Þór Ágústsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, nælir gullmerki ÍSÍ á brjóst Viggós Jónssonar. Mynd: UMSS.

Þá var Viggó Jónsson sæmdur Gullmerki ÍSÍ á þinginu en á heimasíðu UMSS segir að hann hafi unnið afar mikið og fórnfúst starf í tengslum við íþróttir í héraði til fjölda ára. Ingi Þór Ágústsson, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, afhenti Viggó viðurkenninguna.

Alls eru tíu aðildarfélög innan UMSS: Bílaklúbbur Skagafjarðar, Golfklúbbur Sauðárkróks, Hestamannafélagið Skagfirðingur, Íþróttafélagið Gróska, Siglingaklúbburinn Drangey, Ungmenna- og íþróttafélagið Smári, Umf. Hjalti, Umf. Neisti, Umf. Tindastóll og Vélhjólaklúbbur Skagafjarðar.

Rekstrartekjur UMSS ársins 2018 voru kr. 15.865.755, en gjöld upp á 14.074.891, kr. og hagnaður því alls 1.782.738, kr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir