Varnarleikur Stólanna flottur í öruggum sigri á Hetti

Tindastóll og Höttur mættust í 10. umferð Subway-deildarinnar í Síkinu í gærkvöldi. Liðin voru með jafn mörg stig fyrir leikinn en Stólarnir náðu upp hörkuvörn og þó svo að þeir hafi aldrei náð að stinga Austlendingana af þá ógnuðu gestirnir ekki forystu heimamanna verulega. Eftir að hafa leitt með 15 stigum í hálfleik þá urðu lokatölur 83-71.

Jafnræði var með liðunum framan af en staðan var 10-10 eftir tæplega fimm mínútna leik en þá komu þristar frá Pétri og Tóta og Stólarnir náðu undirtökunum. Staðan var 20-18 að loknum fyrsta leikhluta en heimamenn byrjuðu annan leikhluta vel og náðu níu stiga forystu, 27-18. Lið Hattar jafnaði leikinn, 29-29, þegar tæpar fjórar mínútur voru til hálfleiks en þá fengu allir leikmenn Tindastóls smá túrbó sem skilaði sér með 13-0 kafla sem í raun skóp sigur liðsins. Staðan í hálfleik 45-30.

Þristur frá Geks snemma í þriðja leikhluta kom muninum í 20 stig, 52-32, en eftir það náðu leikmenn Hattar að klóra sig inn í leikinn á ný, smátt og smátt. Munurin var kominn niður í níu stig þegar þriðja leikhluta lauk, 61-52, og Buskey skellti í þrist í upphafi fjórða leikhluta og munurinn þá kominn niður í sex stig. Stólarnir skrúfuðu þá fyrir lekann, fyrst setti Drungilas niður þrist og síðan gerði Geks átta stig á skömmum tíma og staðan 72-59. Síðustu sex mínúturnar var munurinn yfirleitt þetta 12 til 16 stig og gestirnir náðu lítið að ógna forystu Stólanna.

Góður sigur því staðreynd en Stólarnir voru enn án Arnars og Calloway. Geks átti stjörnuleik í liði Tindastóls í gær, gerði 27 stig og þar af sex þrista en kappinn spilaði einnig fína vörn, eins og liðið í heild. Þá var Tóti með 20 stig, Lawson 14 og Drungilas 12 en hann tók flest fráköst eða níu stykki. Liðið skipti reyndar frákastatöku nokkuð jafnt og vann þá baráttu 45-37.

Pavel þjálfari var sáttur við sitt lið að leik loknum og fannst liðið vera komið á rétta braut og búið að finna sinn stíl.

Tölfræði leiks >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir