„Við komum reynslunni ríkari inn í deildina í ár,“ segir Bryndís Rut

Skagfirðingarnir Bryndís Rut og Murielle Tiernan klárar í slaginn.
Skagfirðingarnir Bryndís Rut og Murielle Tiernan klárar í slaginn.

Keppni í Bestu deild kvenna fer af stað í kvöld og á Króknum spilar lið Tindastóls fyrsta leikinn gegn liði Keflavíkur. Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Stólastúlkna, segist vera mjööög spennt fyrir tímabilinu þegar Feykir hafði samband. „Eiginlega of peppuð! Við komum reynslumeiri inn í deildina í ár og erum virkilega ánægðar að vera mættar aftur í efstu deild!“ Leikurinn hefst kl. 18:00 á gervigrasinu góða.

Liðunum sem mætast í kvöld var báðum spáð falli í könnun sem fyrirliðar, þjálfarar og formenn félaganna tíu tóku þátt í fyrir upphaf tímabilsins. Þar hlaut lið Tindastóls 51 stig en Keflvíkingar 60 á meðan Blikum var spáð sigri í deildinni, fengu 242 stig, og Stjörnunni öðru sæti með 238 stig. Spá Fótbolta.net gerði ráð fyrir að lið Tindastóls yrði í níunda sæti en FH í því neðsta. Að þessu sinni er breytt fyrirkomulag í Bestu deild kvenna því að móti loknu verður einföld úrslitakeppni þar sem liðunum gefst möguleiki á að bæta stigum í pottinn. Sex efstu liðin keppa þá innbyrðis og fjögur neðstu. Það stefnir því í spennandi sumar í Bestu deild og því best að taka púlsinn aðeins á Bryndísi Rut.

Hvernig finnst þér liðið koma undan vetri, finnst þér hópurinn í betra standi en fyrir Pepsi Max deildina sumarið 2021? „Mér finnst við koma vel út eftir veturinn, gott stand á hópnum og erum að ná að slípast vel saman,“ segir Bryndís Rut. „Við gerum mjög gott úr því að vera með liðið út um allan heim nánast yfir háveturinn, margar æft fyrir sunnan en hafa verið mjög duglegar að koma norður eins og þær geta. Getum sagt að við séum reynslunni ríkari frá Pepsi Max deildinni og já líka í betra standi, enda er þessi deild alltaf að styrkja sig svo við verðum að gera það líka.“

Lið Tindastóls spilar á heimavelli í fyrstu þremur leikjum mótsins; fyrst gegn Keflavík, síðan koma meistaraefni Blika í heimsókn og svo FH. Hvað finnst þér um það að byrja mótið svona á heimaþrennu í vorkuldanum? „Við áttum að spila úti við Breiðablik en vegna framkvæmda á gervigrasinu þeirra þá var ákveðið að víxla á heima- og útileiknum. Þannig að við spilum þrjá útileiki í byrjun seinni umferðar í staðinn. Mér líst vel á að hafa þrjá leiki í röð heima, ég treysti á að það gefi okkur auka meðbyr að byrja mótið á okkar velli með okkar fólk í stúkunni. Veðrið hefur aldrei haft áhrif á okkur og það mun ekkert breytast!“

Helstu breytingarnar á liði Stólastúlkna frá í fyrra eru þær að Amber er horfin úr markinu til Disneylands og Kristrún meiddist í vetur og verður ekki rólfær í sumar. Í þeirra stað eru komnar hin bandaríska Monica í markið og hin þýskættaða Gwen í vörnina. Bryndís segist spennt að sjá hvernig þær komi inn í leik liðsins, þær lofi góðu og séu flottir karakterar. Að auki er Króksarinn Laufey Harpa komin heim í láni frá Blikum en hennar gæði þekkja allir og svo kemur í ljós hvort danska stúlkan í samlaginu, Sofie Dall, fái hlutverk í liði Tindastóls. Vatnsdælingurinn Lara Margrét hefur einnig skilað sér á Krókinn en hún hafði vistaskipti í lið ÍR um mitt sumar í fyrra. 

Höldum áfram að minna á jafnréttið

Allir fyrirliðar liðanna í Bestu deild kvenna ákváðu á dögunum að mæta ekki til leiks þegar Toppfótbolti, sem stendur á bak við keppni í Bestu deildunum, boðaði til hittings þar sem vinna átti kynningarefni. Meginástæðan fyrir því var að í sjónvarpsauglýsingu fyrir deildirnar var hlutur kvennaboltans ansi rýr en eðlilega var reiknað með að hlutur karla og kvenna yrði álíka. Ýmislegt fleira kom upp úr kafinu þar sem Toppfótbolti var ekki að standa sig í að sinna kynjunum jafnt.

Hvað finnst þér um hitamál tengd Toppfótbolta og ójafnan prófíl á deildirnar tvær í auglýsingum um boltann?„Þetta er alltaf barátta, eins og er því miður. ÍTF hefur viðurkennt mistök sín og beðist afsökunar á þessu en það er mjög mikilvægt að fólk horfi fram á við og geri ekki sömu mistökin áfram. Við munum halda áfram að minna á jafnréttið en með það í huga að fólk ætli nú að gera sitt besta héðan í frá. Við verðum jú öll að róa í sömu átt. Auðvitað finnst mér mjög slappt að kynjahlutföllin voru ekki sambærileg, það var glatað. Hinsvegar fannst mér líka slappt að sjá að ekki fengu öll lið í Bestu deild að vera með í auglýsingunni – sá hvergi Tindastólsmerkið!“

Einhver skilaboð til stuðningsmanna í lokin? „Ég hlakka mikið til að sjá ykkur koma á völlinn og mynda stemninguna sem gefur okkur auka kraft. Við erum öll Tindastóll og það er okkur svo mikilvægt að fá ykkar stuðning! Má ég heyra?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir