Á mótorfákum á framandi slóðum :: Tólf manna hópur í ævintýraferð til Víetnam

Í lok september fór tólf manna hópur mótorhjólakappa af Íslandi í ævintýraferð til Víetnam til að aka þar um sveitir. Fjórir af þessum ferðafélögum voru af Króknum einn frá Blönduósi einn af Hellissandi og rest úr Reykjavík, með sterk tengsl á Snæfellsnesið. Feykir settist niður með tveimur þeirra, Baldri Sigurðssyni og Magnúsi Thorlacius og forvitnaðist um ferðina en þeir telja sig vera upphafsmenn hennar.

Aðalhvatamaður að ferðinni
Baldur Sigurðsson.  

„Þetta var ferðin okkar Magga. Við höfum gengið með það í maganum í mörg ár að fara í svona ferð áður en við yrðum fimmtugir. Ætluðum til Indónesíu en það gekk ekki upp þannig að ég fór í það hringja í félaga mína og athuga hvort þeir væru til í þetta, sem var,“ segir Baldur. „Já, Baldur hringdi í mig og sagðist vera búinn að finna ferðina fyrir fimmtugsafmælið og ég ákvað að láta vaða. Það þýddi ekkert annað,“ samsinnir Magnús.

Þann 30. september sl. var því haldið af stað í langt og strangt ferðalag til Hanoi, með viðkomu í Noregi. Þaðan hófst ferðin á mótorhjólum og haldið í norður og allt til borgarinnar Sapa og svo endað aftur í Hanoi. „Við fórum ekkert suður fyrir Hanoi nema við skruppum til Hạ Long Bay í rútuferð og slökun áður en við fórum heim en ferðin sem slík var öll norðan við Hanoi og norður fyrir Sapa sem er mjög norðarlega, alveg við Kínversku landamærin. Fórum með Too wheel travel en þar er kappi sem á og rekur það sem heitir Eiríkur Kúld og er mikill meistari. Hann var leiðsögumaður hjá okkur ásamt tveimur víetnömskum leiðsögumönnum, einum vélvirkja og einum trússbíl. Það voru fimm í „krúi“ hjá okkur,“ útskýrir Baldur en hjólaferðin tók níu daga og ferðin í heild þrettán daga. Þeir félagar segja ferðina hafa tekið á og ekki síður flugið því hvor leið var um 27 tíma ferðalag. „Mér fannst þetta allt í lagi á leiðinni út en svakalega erfitt heim,“ segir Baldur en ástæðan fyrir því var hvernig flugið raðaðist leiðinlega upp að hans mati, stutt bið í Doha í Katar og svo löng í Svíþjóð. Á leiðinni út fékk hópurinn jafnari stopp sem þeim þótti betra.

Allir brosandi

Magnús Thorlacius náði draumaferðinni
fyrir fimmtugsafmælið.

Þeir félagar eru sammála um að ferðin hafi staðið vel undir væntingum og gott betur en það. „Þetta var allt geggjað. Mjög erfitt, sérstaklega tveir dagar, þar sem ég var alveg búinn á því,“ segir Baldur og Maggi samsinnir því: „Já, þetta var mjög krefjandi. Maður hjólar allt frá moldarstígum upp í malbik og það eru beljur og annar búfénaður á vegunum og maður veit aldrei hvað er við næsta horn. Það eru engar umferðarreglur, bara flautan. Þú sérð aldrei löggu, þetta er voða skrýtið allt. Það er byggð meðfram vegum eins langt og augað eygði en hvergi hliðargötur. Við vorum eiginlega alla ferðina að keyra meðfram húsum.“

Þeir upplifðu það sem kallað er menningarsjokk, mikla fátækt heimamanna og hreinlætismálin í öðrum farvegi en hér á að venjast. Sem dæmi er klóakið í opnum ræsum og „pappírslaus viðskipti á klósettinu“, eins og Baldur orðar það, svo það er bara smúllinn sem er notaður. „Það er magnað að þrátt fyrir að fólk eigi varla í sig né á þá eru allir brosandi og allt virðist í topp lagi og allir hafi það gott. Við hittum stúlku sem var að vinna á hótelinu sem við vorum á í Hanoi og hún sagði okkur frá því að hún og kærasti hennar ættu eitt barn og þau búin að koma sér fyrir í eigin húsnæði, örfáa fermetra. Hann vinnur tuttugu tíma á dag, sex daga vikunnar, og hún á hótelinu. Ég held að það sé hörð lífsbaráttan þarna. Ég upplifði það þannig,“ segir Baldur og Maggi kinkar kolli til samþykkis. „Sá sem er að reka einhverja þjónustu, búð eða bar, eða hvað sem það heitir, þá er þetta líkt og, maður sér fyrir sér iðnaðarbil, þar sem maður kemur inn í bissnessinn og svo þar fyrir innan býr fólkið, sefur í vinnunni má segja, á dýnu á gólfinu. Við vorum eitt skiptið í billiard að kvöldlagi og rúmlega eins árs gamall strákur var hlaupandi á eftir okkur með snakkdall allt kvöldið. Fullt af fólki að drekka og skemmta sér, skipti engu máli, hann var bara þarna með,“ segir Magnús.

Smá bras með vísa

Unglingarnir í ferðinni, Króksararnir
Hafþór Gylfason og Gunnar Þór Gunnarsson. 

Ferðafélagarnir af Íslandi voru heppnir með veður, en því miður leifði aðeins af nýloknu rigningartímabili svo hópurinn lenti í töluvert miklum aurskriðum og bleytu sem gerði moldarvegina ansi hála. „Það er engin möl þarna, annað hvort klettar eða alveg hrein mold og hún verður hálli en svell þegar hún er blaut. Hitinn var í kringum 28 stig, 32 gráður það mesta sem við sáum en rakinn var mikill. Við gistum tvær nætur þar sem ekki var loftkæling á herbergjunum og þær nætur fannst mér ég ekki hvílast nóg, það var svo mikill raki,“ segir Baldur. Um heimagistingu var að ræða hjá bændum sem sem þeir félagar segja hafi verið góða og á flestum stöðum í áttina að því að teljast hótel. Þeir segja upplifunina af aðbúnaðinum hafa verið sérstaka og ekki auðvelt að sitja flötum beinum á gólfinu og borða með prjónum. „Maður mátti ekki fara frá borðinu án þess að hafa drukkið ómælt magn af hrísgrjónavíni, sem er á bragðið eins og vondur landi. Hver og einn bóndi býr til sitt vín og allir stoltir af sínu og bjóða það óspart. En það er ekki gott bragðið,“ fullyrðir Magnús og vel hægt að sjá á svip hans að landinn hafi ekki smakkast vel.

Ekki amalegt útsýnið hjá Birni Þórissyni á Blönduósi.

Þeir segja matinn yfirleitt góðan en ekkert endilega sniðugt að kíkja mikið inn í eldhúsið. Uppvaskið var svo unnið með vatnsslöngu, á fjórum fótum eða á hækjum sér á steyptu gólfi bak við hús. Það kom þeim nokkuð á óvart hve maturinn var einhæfur, gjarnan sömu réttirnir dag eftir dag, svolítið eins og kjötsúpan hér á Fróni, þar sem bragðið fer eftir því hver eldar. Þrátt fyrir að hráefnið hafi verið gott, naut og kjúklingur, fengu allir snert af matareitrun á einhverjum tímapunkti í ferðinni og þurftu að eiga við það eins og gengur. Þeir segja ávextina hafa verið mjög góða og nefna sem dæmi að melónurnar hafi verið algjört sælgæti. „Þetta er bara bragðlaust vatnssull sem við erum með hérna. Þarna voru líka litlir bananar mun bragðmeiri en það sem við þekkjum hér. Við fengum líka marga ávexti sem við vissum ekki að væru til og voru mjög góðir“ útskýrir Baldur en niðurskornir ávextir voru alltaf hafðir í eftirrétt.

Aðspurðir um hvort hópurinn eða einhver ferðafélaginn hefði lent í einhvers konar vandræðum í reisunni töldu þeir ekkert sem orð er á hafandi hafa komið upp í Víetnam en ákveðið krísuástand hafa skapast áður en þangað var komið.

Eiríkur Kúld skipuleggjandi ferðarinnar
og eigandi Two Wheel Travel.

„Já, það má segja það. Við misstum mann í Noregi á leiðinni út. Það klikkaði eitthvað hjá honum ferðavísað. Það er þannig að þegar þú sækir um vegabréfsáritun þangað út þá fer það bara í gegn og þú rukkaður en svo færðu ekkert að vita hvort það var í lagi eða ekki. Það var á Gardermoen flugvellinum í Noregi þar sem einn okkar fékk ekki að fara lengra meðan við fórum til Víetnam. Það var nú smá bras þar því að við höfðum tékkað okkur inn í Keflavík sem hópur og töskurnar ekkert merktar einstaklingum. En þeir töldu sig hafa tekið tösku þess sem varð eftir í Noregi en þá var það taskan hans Bjössa Þóris á Blönduósi. Allur mótorhjólabúnaður og annar farangur og Bjössi með tösku þess sem varð eftir. Þeir eru langt í frá í sömu stærð svo þetta gekk ekkert saman. Það varð pínu spaugilegt. En við lentum ekki í neinum vandræðum í Víetnam ekki nema við tveir þegar við vorum að drulla á okkur í drullunni,“ segir Baldur skellihlær.

„Við misstum reyndar hótelherbergi líka í lok ferðarinnar,“ segir Magnús. „Þá áttum við að fara á Halong Bay og vera í tvær nætur á báti en það endaði bara sem ein nótt vegna þess að það reið yfir fellibylur og flóanum lokað fyrir allri umferð. Þá þurftum við að vera aukanótt í Hanoi en ekkert hótelherbergi bókað. Hótelið sem við vorum á var fullt en þetta reddaðist allt. Færðum okkur yfir á annað hótel sem var ekkert síðra. Það eru enda allir af vilja gerðir að hjálpa til.“

Góðar gjafir í skóla

Skólabörn komin í úlpurnar sem þeim voru gefnar. 

Rætt var innan hópsins áður en ferð hófst að skilja eitthvað eftir í samfélaginu áður en landið yrði yfirgefið og var ákveðið að setja leiðsögumanninn í það að fá leyfi til að gefa eitthvað í skóla sem var mjög afskekktur nyrst í landinu. Leyfi fékkst hjá yfirvöldum og var bíll sendur frá Sapa í bæ, sem er einskonar fríríki við kínversku landamærin, þar sem allt er mjög ódýrt. Þar voru keyptar 130 úlpur og 55tommu sjónvarpsskjár sem ætlaður er til kennslu í skóla bæjarins auk vatnshreinsibúnaðar svo nemendur gætu drukkið vatn sem ekki var möguleiki áður þar sem vatnið var ekki hreint. Þá fékk hvert og eitt barn tólf kílóa hrísgrjónapoka, sem kom sér einkar vel í fátæktin sem þarna ríkir. Segja þeir Magnús og Baldur að mjög falleg stund og eftirminnileg hafi þarna skapast og þakklætið hafi skinið úr hverju andliti og jafnvel tár sést á hvarmi starfsfólki skólans. Ekki var bílfært í bæinn og þurfti að flytja allan varninginn á hjólunum eða bera á höndum. Aðspurður segir Baldur kostnaðinn hafa verið undir 30 þúsund á mann eða rúmar 40 milljónir dong, sem er gjaldmiðill Víetnam.

„Gjaldmiðillinn þarna er alveg sér kapítuli út af fyrir sig. Við fórum t.d. á steikhús þar sem ég keypti mér steik og ég borgaði tvær milljónir fjögurhundruð og sjötíu fyrir steikina. Menn fóru ekki á barinn nema vera með tíu kúlur í vasanum,“ segir Baldur og gefur upp hláturroku sem smitar alla í herberginu.

Með lífið í lúkunum

Þegar upp var staðið höfðu ferðalangarnir lagt vel rúma tólf hundruð kílómetra að baki á mótorfákunum og segja þeir hjólabræður það kannski ekki marga kílómetra en á móti er ekki farið hratt í þeim aðstæðum sem fjalllendið býður þar upp á. En er þetta eitthvað sem þeir myndu mæla með fyrir mótorhjólafólk?

Eftir mikla rigningatíð voru nokkur ljón í veginum.

„Já, alveg tvímælalaust. Ég held ég hafi aldrei séð svo mikla náttúrufegurð, alveg stórkostlegt, en þetta var erfitt og ekki fyrir óvana. Þú þarft að vera með reynslu á hjóli til að fara þetta,“ segir Magnús og áréttar að þetta sé ekki sniðugt fyrir óvana. „Við vorum að keyra á 130% getu alla daga,“ segir hann og minnist eins atviks sem reyndi mikið á, svo mikið að lá við hjartaáfalli. Þá lá leiðin upp brekku sem var eitt drullusvað og Baldur í fararbroddi. Komst hann upp í miðja brekku áður en hann magalenti í drullunni. Náði hann þó að brölta á fætur og reisa hjólið við en það reynir á kraftana í þvílíkri drullu, og það í brekku og koma sér upp á brún. Þar segist hann hafa hent sér flötum og beðið eftir félaga sínum. „Þetta er mikill halli og þú rennur afturábak og hjólið er þungt. Þú þarft að setja það upp komast einhvern vegin á það og komast af stað í drullunni, útskýrir Magnús. En eftir að hafa dottið þrisvar í brekkunni náði hann loks upp, skreið af hjólinu og til Baldurs og eina orðið sem hann kom upp var „Vatn, vatn, vatn!“. „Ég var með vatnsblöðru á bakinu,“ segir Baldur og á þar við vatnsgeymi með slöngu, sem hægt er að drekka úr, „og Maggi skreið til mín og lá á brjóstinu á mér og saug eins og brjálaður. Við vorum alveg gjörsamlega búnir þarna“ bætir Baldur við og hláturinn ómar í herberginu.

„Maður var stundum með lífið í lúkunum,“ heldur Magnús áfram. „Það var keyrt í veg fyrir Baldur í einni borginni með þeim afleiðingum að hann small í götuna og ég lenti næstum út af vegna þess að vörubíll keyrði mig út í handrið, munaði engu að ég hefði orðið á milli. Svo datt ég stuttu seinna í malbikið.“

En allt fór vel að lokum og allir komust heilir heim, þreyttir en ánægðir með vel heppnaða ferð. Bera þeir félagar skipuleggjanda ferðarinnar, Eiríki Kúld og hans fyrirtæki, Two Wheel Travel, vel söguna og segja allt hafi verið til fyrirmyndar svo vel er hægt að benda áhugasömum á að skoða þá kosti sem þar eru í boði. „Upplifunin var slík að það trúir okkur enginn þó við reynum að lýsa henni,“ segir Baldur sem þegar er byrjaður að skipuleggja næstu ferð þeirra félaga.

Hér fyrir neðan má sjá vídeó úr ferð þeirra félaga til Víetnam.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir