Bændur áhyggjufullir í óveðrinu

Þeir bændur sem tök höfðu á smöluðu áður óveðrið skall á. Þessi mynd er frá í gær en heldur verssnaði í því undir morgunn þegar hvessti og fór að snjóa. MYND: EVELYN ÝR
Þeir bændur sem tök höfðu á smöluðu áður óveðrið skall á. Þessi mynd er frá í gær en heldur verssnaði í því undir morgunn þegar hvessti og fór að snjóa. MYND: EVELYN ÝR

Veðrið er hreinlega hið leiðinlegasta í dag og svo verður áfram á morgun og væntanlega fimmtudag líka. Á samfélagsmiðlum má sjá margar myndir sem sýna ástandið. Heldur hefur færð skánað í Skagafirði nú eftir hádegið, fleiri vegir greiðfærir en víða hálkublettir eða krap. Öxnadalsheiði er nú greiðfær en krap er á Holtavörðuheiði og norðan 19 m/sek.

Feykir hafði samband við Evelyn Ýr Kuhne, ferðaþjónustubónda á Lýtingsstöðum, en hún sagði veðrið heldur skárra nú eftir hádegi en það var í morgun, þá hafi ekki sést milli húsa. Aðspurð um hvort allt fé væri komið í hús sagði hún svo vera, smalað hefði verið í gær við erfiðar aðstæður og féð væri nú í húsi og fullt út úr dyrum.

Fram kemur í færslu hjá Evelyn á Facebook í morgun að skurðir hafi verið farnir að fyllast af snjó og því orðnir hættulegir fyrir fé. Þá hafi ísing verið farin að myndast á girðingum og þá ekki ólíklegt að raflínur hafi tekið á sig ísingu.

Samkvæmt upplýsingum Feykis hafi þeir bændur sem möguleika höfðu á að koma sínu fé í hús notað tækifærið í gær og smalað. Einn dagur af svona vetrarveðri í sumarbyrjun hefði kannski ekki verið vandamál en öðru máli gegnir um veður sem stendur mögulega í 4-5 daga og bændur því áhyggjufullir. Bæði er hætta á að féð fái júgurbólgu eða fari að leita að skjóli í skurðum þar sem það geti fennt í kaf.

Þá er vitað til þess að bændur hafi tekð inn nýkastaðar folaldsmerar og hýsi sömuleiðis allra yngstu folöldin. Það er því að mörgu að hyggja þegar svona vonskuveður skellur á og mörg verkin sem þarf að inna af hendi svo allt fari vel.

- - - - -
Hér að neðan eru nokkrar myndir sem Evelyn Ýr, Gunnhildur Gísla, Ragga Halldórs og Óli Arnar tóku í gær og í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir