Fálki gerir sig heimakominn í Gilstúninu á Króknum

Fálkinn mun seint teljast til garðfugla en þó brá hann sér þessi í kaupstaðarferð í gær og gæddi sér á ungmáfi sem líklega hefur bragðast eins og besta rjúpa. Mynd: Sveinn Brynjar Pálmason.
Fálkinn mun seint teljast til garðfugla en þó brá hann sér þessi í kaupstaðarferð í gær og gæddi sér á ungmáfi sem líklega hefur bragðast eins og besta rjúpa. Mynd: Sveinn Brynjar Pálmason.

Það er alltaf skemmtilegt að sjá sjaldgæfa gesti úr dýraríkinu í garðinum hjá sér og það fengu íbúar í Gilstúninu á Sauðárkróki að upplifa í gær er myndarlegu fálki mætti á svæðið. Fuglinn kom ekki tóm“hentur“ þar sem ungur máfur hafði orðið hans nesti.

„Fuglinn kom um tvö leytið í gær og hefur líklega verið í korter til tuttugu mínútur,“ segir Sveinn Brynjar Pálmason, íbúi í Gilstúni 12 sem fagnaði komu gestsins. „Það er gaman að sjá svona fugl í návígi en ætli ég hafi ekki verið í svona 5-7 metra frá honum. Það er ekki á hverjum degi sem maður sér svona fugl í garðinum hjá sér.“

Sveinn segir að að hann hafi séð fiður svífa framhjá glugganum á húsinu sínu og haldið að Hákon bróðir hans væri eitthvað að brasa en hann býr í næstu íbúð í parhúsi þeirra bræðra. Hann veitti þessu ekki meiri athygli fyrr en Hákon hringdi og segir honum frá gestinum. Þeir fóru svo báðir út, vopnaðir myndavélum og freistuðu þess að ná góðum myndum. Sveinn segir að fálkinn hafi svo flögrað í burtu þegar fleiri áhorfendur bættust í hópinn og gerðust full nærgöngulir.

Samkvæmt heimildum Feykis er hér um kvenfugl að ræða og bráðin líklega ungur mávur.

Á Fuglavefnum segir að aðalfæða fálkans sé rjúpa, sem hann slær með klónum á flugi eða grípur á jörðu niðri en hann veiði flestar tegundir fugla. Fer það talsvert eftir veiðilendum hvaða bráð verður fyrir valinu, allt frá fullorðnum heiðagæsum niður í þúfutittlinga og auðnutittlinga, einnig hagamýs.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem þeir bræður Sveinn Brynjar og Hákon Frosti tóku af gestinum í garði þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir