Ferðamáladeild Háskólans á Hólum stendur fyrir ráðstefnu um viðburðarstjórnun

Ferðamáladeild Háskólans á Hólum stóð sl. fimmtudag fyrir ráðstefnu í Hörpu sem bar titilinn Viðburðalandið Ísland.  Háskólinn á Hólum er nú eini háskólinn hérlendis sem býður upp á nám í þessari sívaxandi grein og því var ákveðið að blása til ráðstefnu til að vekja athygli á náminu og mikilvægi þess að skipulag viðburða sé unnið faglega. 

Sérstakur gestur ráðstefnunnar var Michelle Lanham kennari við viðburðastjórnunardeild Leeds Beckett háskólans í Englandi, sem er stærsta deild á þessu sviði þar í landi.  Skóli þessi er samstarfsskóli Háskólans á Hólum og þangað hafa þegar farið tveir nemendur frá Hólum, en nemendum Ferðamáladeildar er boðið upp á að taka hluta af sínu MA námi í Leeds. 

Á ráðstefnunni töluðu auk þess sjö íslenskir viðburðastjórar sem sögðu frá sínum viðburðum og endurspegluðu frásagnir þeirra mikla fjölbreytni í íslensku viðburðaflórunni. Í lokin fóru fram umræður í hópum þar sem frummælendur og ráðstefnugestir krufðu þau mál sem hæst höfðu farið í erindum dagsins.

Að sögn Laufeyjar Haraldsdóttur deildarstjóra Ferðamáladeildar, eru nemendur í viðburðastjórnunarnáminu á Hólum nú 45 talsins, þar af 28 nýnemar. Um er að ræða eins árs hagnýtt nám, með 12 eininga verknámsverkefni í lokin þar sem nemendur taka þátt í að undirbúa og framkvæma raunverulegan viðburð. Útskrifaðir nemendur með diplómagráðu í viðburðastjórnun eru nú orðnir 142 á þeim níu árum sem liðin eru síðan kennsla í greininni hófst á Hólum.

Að sögn Áskells Heiðars Ásgeirssonar, viðburðarstjórnanda og kennara í Ferðamáladeild, sem skipulagði ráðstefnuna í Hörpu, var hún mjög vel heppnuð og mikilvæg í ljósi þess að Ferðamáladeild Háskólans á Hólum leggur mikla áherslu á að tengja námsleiðir deildarinnar við atvinnulíf. Þarna gafst nemendum skólans gott tækifæri til að hlusta á og ræða við fagfólk sem starfar við skipulag viðburða hér á landi. Skipulagðir viðburðir eru orðnir mikilvægur hluti af ferðaþjónustu, sem og samfélaginu í heild og þýðingarmikið að fólk með þekkingu og færni komi að skipulagi og framkvæmd þeirra.  Áskell Heiðar segir samstarfið við Hörpu líka vera mikilvægt og áhugi sé fyrir því að endurtaka leikinn að ári og halda þannig áfram samtali um Viðburðalandið Ísland.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem þær Laufey Haraldsdóttir og Ingibjörg Sigurðarsdóttir tóku á ráðstefnunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir