Fjör og frískir fætur á Króksmóti um helgina

Galvaskir Tindastólspiltar kampakátir með verðlaunapeningana sína. MYNDIR: ÓAB
Galvaskir Tindastólspiltar kampakátir með verðlaunapeningana sína. MYNDIR: ÓAB

Króksmót Tindastóls og FISK Seafood fór fram nú um helgina á Sauðárkróki. Þátttaka var með ágætum og óhætt að fullyrða að veðrið hafi verið Króksurum og gestum þeirra hliðhollt því varla er hægt að tala um að hreyft hafi vind svo nokkru næmi frá því að gestir tóku að streyma á Krókinn síðastliðinn föstudag í logni og heiðskýru og þangað til mótinu lauk – þá fór hinsvegar að rigna.

Mótið var sett snemma á laugardagsmorgni í glampandi sól og brakandi blíðu en hitastigið sleppti þó ekki fram af sér beislinu. Þegar ljósmyndari Feykis kíkti á vellina voru ansi margir með bros á vör en stöku skeifa sást á þeim sem fóru halloka í boltanum en var nú alla jafna fljót að snúast við. 

Króksmót er ætlað strákum í 6. og 7. flokki en ekki er annað að sjá en stúlkurnar fái að fljóta með án vandkvæða ef svo ber undir. Þá vekur hraðmót í 8. flokki mikla lukku en þar eru ansi litlir fætur á ferð og ekki allir þátttakendur jafn hrifnir af boltanum og athyglinni sem þeir fá frá áhorfendum. 

Mótinu var fram haldið í morgun og enn var veðrið í góðu lagi, ský dró upp á himininn þegar á leið en veðrið sem fyrr stillt og gott. Þegar nálagaðist hádegi voru línur farnar að skýrast í riðunum en bæði í 6. og 7. flokki var keppt í fimm styrkleikariðlum. Öllum leikjum var lokið fyrir klukkan þrjú og þá hófst verðlaunaafhending og síðan héldu gestir heim á leið eftir vel heppnað knattspyrnumót.

Ekki er annað að sjá á myndunum sem hér fylgja en að svona mót séu gulls í gildi fyrir jafnt þátttakendur, foreldra og alla aðra sem þau sækja eða tengjast. Svona mót snýst nefinlega um svo heilmargt annað gott en bara gamla góða fótboltann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir