Kiwanisklúbburinn Drangey með skínandi gjafir

Karl Lúðvíksson, Eva Líney Þorláksdóttir og Emil Björnsson ásamt nemendum 1. bekkjar Höfðaskóla á Skagaströnd en þau heimsóttu skólana í Húnavatnssýslum. Í Skagafirði var skipt um áhöfn en þá slógust Karel Sigurjónsson Kiwanismaður, Birgir Jónasson lögreglustjóri og Guðrún Aníta Hjálmarsdóttir lögreglukona, í hópinn. Aðsendar myndir.
Karl Lúðvíksson, Eva Líney Þorláksdóttir og Emil Björnsson ásamt nemendum 1. bekkjar Höfðaskóla á Skagaströnd en þau heimsóttu skólana í Húnavatnssýslum. Í Skagafirði var skipt um áhöfn en þá slógust Karel Sigurjónsson Kiwanismaður, Birgir Jónasson lögreglustjóri og Guðrún Aníta Hjálmarsdóttir lögreglukona, í hópinn. Aðsendar myndir.

Á heimasíðu Höfðaskóla á Skagaströnd kemur fram að Kiwanisklúbburinn Drangey á Sauðárkróki hafi afhent nemendum 1. bekkjar skólans endurskinsvesti en þar voru þeir Karl Lúðvíksson og Emil Hauksson á ferðinni. „Með í för var fulltrúi lögreglunnar á Norðurlandi vestra og þökkum við þeim öllum kærlega fyrir gjöfina og komuna,“ segir í tilkynningu skólans.

Að sögn Karls fóru þeir félagar í þrjá skóla þann daginn með vesti handa nemendum 1. bekkjar. „Við fórum auðvitað í lögreglufylgd með henni Evu Líney, sem er, eins og ég, ættuð frá Skagaströnd. Þar hafði hún verið í skóla einhver ár og ég allan grunnskólann og auk þess kennari þar í alls fjögur ár. Okkur fannst því mjög gaman að koma í gamla skólann okkar,“ segir Karl er Feykir hafði samband. Hann segir Emil vera yfir þessu verkefni Kiwanisfélaga og hefur hann verið á ferðinni á Norðurlandi vestra, í lögreglufylgd, og heimsótt skóla.

„Lögreglan er hrifin af þessu verkefni og lítur á það sem gott tækifæri til að heilsa upp á þetta unga fólk og mæla með notkun vestanna í forvarnarskyni,“ segir Lúðvík.

Þegar Feykir hafði samband við Emil hafði hann farið um Húnavatnssýslur og Skagafjörð en átti eftir að heimsækja skóla á Hólmavík og Drangsnesi. Þetta er þriðja árið í röð sem klúbburinn dreifir vestum á þennan hátt, í samstarfi við VÍS sem er styrktaraðili verkefnisins. Emil segir að einn félagsmaður, Gunnar Línberg Sigurjónsson, hafi átt hugmyndina að þessu og kom því af stað.

„Fyrsta árið var öllum í 1. til 6. bekk á þessu svæði gefin vesti en út af Covid voru þau send í flesta skólana. Í fyrra fór ég hins vegar í alla skólana á Norðurlandi vestra, með lögregluna með mér eins og nú, en mér var þá falið að sjá um þetta verkefni,“ segir Emil sem ákvað að fá lögregluna með sér í skólana sem tók boðinu fagnandi og nýtir sem gott tækifæri í sínu forvarnarstarfi.

Aðspurður um notkun krakkanna á vestunum segir Emil hana því miður ekki nógu mikla. „Ég vildi sjá meiri árangur og hef einsett mér að vera með meiri áróður inn á milli. Við tókum það fram við krakkana núna að ef þau væru ekki að nota vestin, að geyma þau þá í skólatöskunni, þá gætu þau klæðst þeim þegar þau færu út. Það er líka nauðsynlegt að minna foreldra á að fylgja þessu eftir líka,“ segir Emil enda gerir endurskinsvesti inni í skáp ekkert gagn.

„Staðreyndin er sú að eftir að við fórum af stað með hjálmaverkefnið þá tók það okkur þrjú til fimm ár að sjá árangur. Að vísu kom áróður líka frá samfélaginu að allir notuðu hjálma, það hjálpaði, en hver veit hvað gerist núna?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir