Reynistaðarbræðrum reistur minnisvarði

Minnisvarðann vildu núverandi Reynistaðarbræður reisa til minningar um hrakningar þeirra Bjarna og Einars sem urðu úti á Kili snemma vetrar 1780. Það var Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson sem hannaði verkið. Myndir PF.
Minnisvarðann vildu núverandi Reynistaðarbræður reisa til minningar um hrakningar þeirra Bjarna og Einars sem urðu úti á Kili snemma vetrar 1780. Það var Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson sem hannaði verkið. Myndir PF.

Það var vel mætt á Reynistað er minnisvarði um Reynistaðarbræður var vígður sl. sunnudag. Eins og margir kannast við segir sagan að þeir bræður Bjarni 19 ára og Einar 11 ára, auk þriggja annarra, hafi orðið úti á Kili snemma vetrar 1780 eftir fjárkaupaferð á Suðurland.

Lík leiðangursmanna fundust löngu síðar og málaferli urðu í kjölfar þess að talið var að lík einhverra leiðangursmanna hefðu verið rænd. Eins og Sigríður Sigurðardóttir, fv. safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, kom inn á í erindi sínu við athöfnina á Reynistað urðu þau málaferli engum til góðs. Auk Sigríðar flutti Axel Kristjánsson tölu en hann skrifaði þátt um Jón Austmann og Reynistaðarbræður í nýjustu Skagfirðingabók. Sigurður Hansen flutti frumsamið ljóð um hrakningar bræðranna og sr. Gísli Gunnarsson sagði m.a. frá kynnum síum af Reynistaðarhjónum Guðrúnar Steinsdóttur og Sigurðar Jónssonar sem bjuggu á Reynistað í rúma hálfa öld en bygging minnisvarðans var tileinkuð 100 ára ártíð þeirra.

Beinahóll er lágur hóll á Kili þar sem leiðangursmennirnir urðu úti með fjölda fjár og hesta sem þeir höfðu keypt fyrir sunnan vegna fjárskipta. Hóllinn dregur nafn sitt af miklum fjölda kinda- og hrossabeina sem liggja þar enn. Þar var reistur minnisvarði árið 1971 og hann afhjúpaði afkomandi Halldórs Bjarnasonar og Ragnheiðar Einarsdóttur, ábúenda á Reynistað og foreldra Reynistaðarbræðra, Bjarni Halldórsson frá Uppsölum. Sonur Bjarna og elsti afkomandi þeirra Reynistaðahjóna, Árni Bjarnason á Uppsölum afhjúpaði svo minnisvarðann á Reynistað sl. sunnudag og þótti vel við hæfi.

Fram kom í máli Jóns Sigurðssonar að þeir bræður sem kenna sig við Reynistað nú væru alls óskyldir þeim er lentu í þeim hrakningum sem minnst hefur verið en saga þeirra hefur alla tíð fylgt staðnum og ábúendum og mun svo verða um ókomin ár.

Jón kom inn á það að bygging minnisvarðans væri tileinkuð 100 ára ártíð foreldra núverandi Reynistaðarbræðra, þeirra Guðrúnar Steinsdóttur og Sigurðar Jónssonar eins og áður er getið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir