Sæluvikan sett í dag

Við setningu Sæluviku 2018. Mynd: PF.
Við setningu Sæluviku 2018. Mynd: PF.

Í dag var lista- og menningarhátíðin Sæluvika Skagfirðinga formlega sett í Safnahúsinu á Sauðárkróki að viðstöddu fjölmenni. Ljósmyndasýning Gunnhildar Gísladóttur var opnuð af því tilefni, úrslit Vísnakeppni Safnahússins kynnt og samfélagsverðlaun Skagafjarðar voru afhent. Að þessu sinni var ákveðið að veita hjónunum Árna Stefánssyni, íþróttakennara, og eiginkonu hans, Herdísi Klausen, hjúkrunarfræðingi, samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2018.

Í ávarpsorðum Gunnsteins Björnssonar, formanns atvinnu-, menningar-,  og kynningarnefndar sveitarfélagsins kom fram að til marks um það frumkvöðlastarf sem þau hjón hafa unnið er að  í dag þyki öllum sjálfsagt að skokka en þegar starf þeirra hófst þótti mögum skrítið að hlaupa um allt án sýnilegs tilgangs.

Starfsemi Skokkhóps Sauðárkróks má rekja aftur til ársins 1995 þar sem fjöldi fólks hefur notið leiðsagnar hans í hollri og skemmtilegri hreyfingu. Hefur hróður hópsins vakið athygli langt út fyrir Skagafjörð um árabil. „Herdís, eiginkona Árna, hefur staðið við hlið hans í Skokkhópnum allan tímann og á ekki síður en Árni þátt í því hversu öflugt starfið hefur verið,“ sagði Gunnsteinn áður en hann sæmdi þau hjón viðurkenningunni.

Vísnakeppni Safnahússins hefur verið fastur liður Sæluvikunnar frá árinu 1976 og nýtur enn vinsælda. Úrslit keppninnar í ár voru kynnt á setningunni og voru veitt verðlaun annars vegar fyrir besta botninn og hins vegar fyrir bestu vísuna. Besta botninn að þessu sinni átti Ingólfur Ómar Ármannsson og bestu vísuna, eða öllu heldur vísurnar átti Jón Gissurarson. 

Botn Ingólfs Ómars er á þessa leið: 

Vetur hopar vorið nær
völdum næstu daga.
Viður brumar völlur grær
vermir sólin haga.

Besta vísan, eða vísurnar mynduðu skemmtilega lýsingu á Þórði kakala. 

Girtur sverði gengi hann um stræti
gullinn hjálmur þar á höfði sæti.
Kakali sér kynni ekki læti
karlinn myndi dansa ef hann gæti.

Inn til landsins fögru fjallasala
færi hann með okkur til að smala.
Kátur myndi konur einnig fala
kyssa heimasætur fram til dala.

Karlinn yrði eðal Skagfirðingur
ætíð væri þar sem Heimir syngur
Vart hann myndi hræðast glasa glingur
gjarna léki þá við hvern sinn fingur.

Ýmislegt forvitnilegt er á boðstólum alla vikuna og má sjá hér fyrir neðan nokkrar myndir dagsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir