Sjöundi sigurleikur Stólastúlkna í röð í Lengjudeildinni

Rakel Sjöfn í baráttunni gegn ÍA og veðrinu. MYNDIR: ÓAB
Rakel Sjöfn í baráttunni gegn ÍA og veðrinu. MYNDIR: ÓAB

Kvennalið Tindastóls fékk Skagastúlkur í heimsókn í Lengjudeildinni í dag. Liði ÍA hefur ekki gengið vel í sumar, vörn liðsins er ágæt en þeim hefur gengið illa að skora og eru fyrir vikið þriðju neðstar. Stólastúlkur hafa aftur á móti bæði varist vel og verið skæðar í sókninni og því komu úrslitin, 2-0, kannski ekkert á óvart. Niðurstaðan var sanngjörn og enn færist lið Tindastóls nær hinum heilaga gral – Pepsi Max-deildinni.

Leikurinn hófst kl. 12:30 í dag, hafði verið færður fram um 90 mínútur sökum þess að veðurspáin var slæm. Að sjálfsögðu varð niðurstaðan sú að veðrið var aldrei verra í dag en á meðan á leik stóð. Það var hvasst í fyrri hálfleik en sólskin og Stólastúlkur voru frekar með suðvestan vindinn í bakið og þeim gekk ekki nógu vel að halda boltanum niðri. Margar sóknir runnu út í sandinn eftir langar sendingar sem vindurinn greip með sér. Gestirnir virtust hafa skorað ágætt mark eftir að Amber, markvörður Tindastóls, fór út í teig til að koma boltanum burtu. Boltinn fór ekki langt og ein Skagastúlkan var fljót að hugsa og sendi boltann yfir Amber og í markið. Fögnuður gestanna varð ekki langlífur því línuvörður flaggaði rangstöðu. Eftir þetta náði lið Tindastóls betri tökum á leiknum og það hlaut að koma að því að horn- eða aukaspyrnur liðsins bæru ávöxt. Á 34. mínútu tók Jackie hornspyrnu frá vinstri og sendi háan og hættulegan bolta inn að marki ÍA. Aníta í markinu náði að blaka boltanum frá en eftir smá klafs barst boltinn á Láru Mist sem skilaði boltanum í markið af öryggi og gerði um leið fyrsta mark sitt fyrir Tindastól. Staðan 1-0 í hálfleik.

Skagastúlkur færðu lið sitt ofar á völlinn í byrjun síðari hálfleiks og pressuðu ágætlega fyrstu fimm mínúturnar. Þá náðu heimastúlkur yfirhöndinni á ný og næstu 15 mínúturnar fengu þær 4-5 mjög góð færi til að auka við forystuna. Boltinn féll ekki nógu vel fyrir þær í vindinum og ekki bætti úr skák að það fór að rigna í upphafi síðari hálfleiks og síðan kom þessi fíni éljabakki og sturtaði úr sér yfir völlinn í 10-15 mínútur. Áhorfendur forðuðu sér í skjól en leikmennirnir bösluðu áfram.  Öll él styttir upp um síðir og sólin braust fram á ný í þann mund sem Jackie Altshculd bætti við öðru marki Tindastóls. Hún fékk boltann á auðum sjó á fjærstöng eftir fína vinnu frá Mur. Skagastúlkur náðu ekki að ógna að ráði eftir þetta og Stólastúlkur fögnuðu sjöunda sigri sínum í röð. 

Nú er fátt sem kemur í veg fyrir að Tindastóll spili í Pepxi Max-deild kvenna næsta sumar. Það eru fjórir leikir eftir og þær þurfa fjögur stig af þeim 12 sem eru í pottinum til að gulltryggja sætið. Næsti leikur er á Húsavík gegn liði Völsungs sem er neðst í deildinni.

Það var erfitt að spila góðan fótbolta í dag, aðstæður voru verulega strembnar. Lið Tindastóls gerði það sem þurfti, náði að gera tvö mörk og tryggja stigin þrjú. Liðið gaf sem fyrr fá færi á sér og hélt enn eina ferðina markinu hreinu. Í vindinum gekk illa að finna Mur í fyrri hálfleik en hún átti ágæta spretti í síðari hálfleik en varnarmenn ÍA gerðu engu að síður vel í að stoppa hana. Gamla lumman um sigur liðsheildarinnar á vel við að þessu sinni. 

Uppfært 21.09.2020: Reiknimeistari í Tónlistarskólanum á Sauðárkróki hafði samband við Feyki og tjáði blaðamanni að ef lið Tindastóls vinnur leik sinn á miðvikudag gegn Völsungi þá sé ómögulegt fyrir bæði Keflavík og Hauka að ná liðinu að stigum því þau eiga eftir að mætast innbyrðis tvívegis. Sigur á Húsavík, og þau þrjú stig sem færu þá í pottinn, dugi til að koma liði Tindastóls í fyrsta sinn í sögu félagsins í efstu deild fótboltans! Staðan í Lengjudeildinni >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir