Skagafjörður skartaði sínu fegursta er Bauluhellir var heimsóttur - Myndir

Hægt er að fara í Bauluhelli sem er við sjávarmálið upp af fjörunni í Baulubás. Mynd: PF.
Hægt er að fara í Bauluhelli sem er við sjávarmálið upp af fjörunni í Baulubás. Mynd: PF.

Fjallið Tindastóll í Skagafirði hefur margar sögur að geyma og ýmsar kunnar. Ein er sú að hellir einn, Bauluhellir, hafi náð í gegnum fjallið og verið manngengur. Annar munninn er inn af Baulubás sem er austan í fjallinu norðanverðu, rétt utan Glerhallarvíkur við Reyki á Reykjaströnd en hinn við Atlastaði í Laxárdal. Nafnið dregur hellirinn af því að sækýr trítlaði í gegn og sást við Atlastaði sem er gamalt eyðibýli milli Hvamms og Skíðastaða.

Í  íslenskum þjóðsögum er þetta ritað:

„Svo er sagt að einn tíma væri prestlaust í Hvamms- og Ketuprestakalli. Þjónaði þá Hálfdán prestur í Felli því um hríð og reið Grána sínum yfir Skagafjörð þveran; var þó sjó auður og ísalög engi. Á þeim ferðum lokaði hann enum nyrðra munna Bauluhellis er átti að ganga í gegnum utanverðan Tindastól endilangan. Bauluhellir sést enn og er nú aðeins fimm eða sex faðma langur. Hann gengur við sjó niður inn í hinn nyrðra enda Tindastóls. En það er í sögnum haft að annar munni hans hafi að fornu verið í Atlastaðadal. Sá dalur gengur vestan á Tindastól og upp frá Atlastöðum; yrði hellirinn þá að hafa verið nær hálfri mílu á lengd. Nafn sitt er mælt hann hafi af því að einn tíma hafi sækýr komið út af þeim munnanum er á dalnum var.“

Í Byggðasögu Skagafjarðar segir að á Atlastöðum sé hellir, Kambshellir í Kambsgili, og er hann á bak við foss sem þar er og er gengt á bak við fossinn.

Blaðamaður Feykis fékk í gær að fljóta með í skemmtilegum félagsskap að skoða básinn og hellinn og næsta nágrenni. Veðrið var alveg dásamlegt, logn og sléttur sjór og auðvitað var síminn á lofti til að ná myndum úr ferðalaginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir