Skagfirskir geitaostar væntanlegir á markað

Geiturnar á Brúnastöðum hafa það gott í guðsgrænni náttúrunni í Fljótunum. Mynd: Stefanía Hjördís Leifsdóttir.
Geiturnar á Brúnastöðum hafa það gott í guðsgrænni náttúrunni í Fljótunum. Mynd: Stefanía Hjördís Leifsdóttir.

Á Brúnastöðum í Fljótum hefur matarsmiðja verið í smíðum undanfarin misseri og fyrstu afurðirnar að líta dagsins ljós. Um er að ræða geitaosta en þau hjón, Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Ríkarðsson, hafa einnig sett upp mjaltakerfi fyrir geitur og sauðfé og væntanlega verður mjólkin úr ánum einnig unnin í framtíðinni.

Stefanía segir á Facebook-síðu sinni að fjölskyldan hafi opnað matarsmiðjuna eftir mjög langan undirbúning sem hófst vorið 2018 með námskeiði í Farskólanum, Matarsmiðjan beint frá býli. „Það er ekki einfalt ferli eða ódýrt að fara í slíkar framkvæmdir hér á Íslandi. Kröfurnar eru miklar, bæði hvað varðar húsnæðið og öll leyfi. En við erum líka komin með frábæra vinnuaðstöðu þar sem við getum dundað okkur fram á elliár ef lukkan leyfir,“ skrifar Stefanía og bætir við að fyrstu afurðirnar séu að líta dagsins ljós þessa dagana, geitaostar.

„Við hefðum varla farið í þessa vegferð með ostagerð nema að vera svo ljónheppin að á Akureyri býr maður sem er mjólkurfræðingur og hefur manna lengsta reynslu af handverksostagerð á Íslandi, Guðni Hannes Guðmundsson. Hann var boðinn og búinn að koma okkur af stað með verkefnið og mun verða okkar leiðbeinandi og hönnuður ostanna.“

Stefanía segir þetta verkefni mjög spennandi og skemmtilegt fyrir matgæðinginn og eldhúsfíkilinn sem hún sé og geiturnar virðast hafa það mjög gott í náttúru Fljótanna.

„Það hentar greinilega geitunum okkar vel að spranga um hér undir fjallgarðinum því Guðni Hannes er sérstaklega ánægður með gæði mjólkurinnar, sem er bæði próteinrík og feit, og virðist henta afar vel til ostagerðar. Þær fá líka hrat frá bruggverksmiðjunni Segli á Siglufirði þannig að kannski eru þær alltaf svolítið mildar,“ segir Stefanía í léttum tón. „Við erum líka aðeins búin að mjólka kindur og verður spennandi að vinna með mjólkina úr þeim. Það verður vonandi gert mun meira af því næsta sumar. Við bíðum bara eftir að söluleyfi fyrir ostana frá MAST detti í hús svo við getum farið að koma þeim á markað.“

Meðfylgjandi myndir sem eru teknar af Facebooksíðu Stefaníu Hjördísar sýna hina glæsilegu aðstöðu sem komin er upp á Brúastöðum, aðbúnað og afurðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir